Wednesday 20 February 2008

sonna, sonna...

Já, tilvistarangst, það er rétta orðið! Engar áhyggjur samt kæru vinir (sett inn vegna mikilla áhyggjuviðbragða nokkurra vinkvenna) Mér er sagt þetta sé bara 'partur-af-programmet' og hver veit nema ég uppgötvi eða jafnvel finni upp eitthvað nýtt sem þjónar mannkyni voru. Hvort sem það verður eitthvað fýsískt eða já, bara almennt huglægt frelsisathvarf, ávallt til þjónustu reiðubúin! Ykkar einlæg, sem aldrei fyrr í stöði, Sibbýsjálf <><

Monday 18 February 2008

Er það nema von?!

Þeir sem þekkja mig kannast kannski við að ég eigi til að fyllast valkvíða, óákveðni, útúrsnúningaröskun, flækjuáráttu og öllu sem þessu fylgir! Sér í lagi þegar horfir fram á ófarin veg, ófarin og óskrifaðan! Nú stend ég frammi fyrir einum slíkum... eða réttara sagt nokkrum slíkum... og enn sem fyrr stend ég á gati og að því er virðist get mig hvergi hrært! Ekki það að ég er nokkuð vön, hef oft valið að standa á gati og oftar en ekki orðið m.a.s. nokkuð óróleg ef ekki er gat í nálægð! Nú hins vegar líður mér eins og ég standi á síðasta gatinu! Það er hvorki pláss, né tími, fyrir fleiri göt. Það er annað hvort að detta bara ofan í þetta gat og sjá hvað setur (opna kannski augun 'down under') eða taka skrefið til fulls hinn eina sanna veg. Til þess þarf ég allt að því ofskammt af hugrekki og óbilanditrú og traust. Hvar sem ég finn það!
Að vera einn í 33 ár er þægilegt á margan hátt, einmanalegt en þægilegt. Það er enginn og ekkert sem hefur áhrif á hvað þú vilt og ætlar að gera! Nema þú sjálfur og umhverfið sem þú velur að vera hluti af en það umhverfi er á endanum óháð! Þú getur gert allt og ekkert, bara eftir því hvernig þér líður! Hér væri einmitt upplagt að fara út í sálma um sambönd og ástina en nei; Bobba bjútí segir sæl og skilur eftir sig bros á þakklátri vör fyrir umheiminn... djöst ða vei it is!

Saturday 9 February 2008

Fallegasta land í heimi!

Ísland hefur skartað sínu fegursta undanfarnar vikur á milli þess sem það hefur sýnt sínar myrkustu hliðar. Í síðustu viku var ógurlega kalt, nokkuð stillt en bjart og fallegt. Í þessari viku höfum við 'mátt þola' hvern storminn á fætur öðrum, sjónleysi sökum fjúks og ófærð á vegum flestum. Á laugardaginn fyrir viku hóf ég vinnu kl. 06 um morguninn og þá var frostið í -21°C sem er líklega það mesta sem ég hef upplifað síðan í Þórsmörk um aldarmótin s.l. þegar það fór niður í -27°C. Guði sé lof fyrir logn því dagurinn var sérlega fallegur! Í gær var ég veðurteppt í höfuðborginni, komst með naumindum yfir fjallið í morgun og nú bendir Siggi Stormur okkur á að 'teypa' gluggana í kross ef eitthvað skyldi nú koma fljúgandi inn um gluggana hjá okkur! Upplífgandi, ikke? Hressa týpan þarf nú aldeilis að þakka fyrir góða veðrið síðasta sumar og vonandi enn betra í sumar sem kemur -

En almáttugur minn; allan stein tekur úr í kvöld þegar þrumur og eldingar hleypa upp öflum sem ég bara hreinlega mundi ekki eftir, rafmagnið blikkar, húsið hriplekur og hriktir í! Haglél á stærð við egg lemur á rúðunum og manni bara hreinlega stendur ekkert á sama! Það er eins og hún vinkona mín StellaBella segir; c'est ca le truc, en Islande - en fin de la journée, tu ne sais pas si tu vas sortir de la route ou non!!! eða 'það er nú málið á Íslandi - maður veit aldrei hvort maður keyrir út af eður ei! ;o)
Jú, jú - við eigum kannski fallegasta land í heimi en er þetta ekki orðið ágætt bara svo við getum farið að tala um eitthvað annað en veðrið; já, kannski eins og ættfræði?!

Monday 4 February 2008

Af hverju þorskur?

Í dag var þorskur í hádegismat og spunnust umræður um kvikindið í kjölfarið.
'Þorskur er miklu betri en ýsa' - 'Ég vil ekki sjá þorsk' - ´Þetta er bara ormafæða' og fleira í þessum dúr fauk um hæðir! Af hverju ætli það séu svona skiptar skoðanir um þorskinn? Og af hverju skyldum við ekki borða hann meira hér á landi en raun ber vitni þrátt fyrir að flytja hann út í tonnavís? Ætli það sé bara vegna ormanna eða ætli það sé önnur og meira viðeigandi skýring á þessu? Mér dettur í hug að þar sem við fluttum út þorskinn til að skapa verðmæti, höfum við hreinlega ekki 'tímt' að borða hann sjálf, heldur borðað bara 'restarnar', þ.e. ýsuna, í staðinn. Getur verið verið einhver fótur fyrir því? Hér koma nokkrir molar um þorskinn sem ég fann á netinu; verð'ykkur að góðu :o)
Þorskur (fræðiheiti: Gadus) er vinsæll matfiskur með þétt, hvítt kjöt. Á Íslandi er almennt átt við Atlantshafsþorsk (Gadus morhua) en hann er algengur í kringum landið. Hann er botnfiskur og er algengastur á 100-400 metra dýpi.
Þorsklifur er brædd í þorskalýsi sem inniheldur A-vítamín, D-vítamín og Ómega-3 fitusýrur.

Smáþoskur étur ýmsa hryggleysingja eins og ljósátu, marflær og rækju en þegar hann stækkar étur hann loðnu og síli. Stórir þorskar éta karfa, smáþorsk, skráplúru, kolmunna, ýsu og síld. Margir fiskar og sjófuglar éta þorskseiði. Selir, hvalir og hákarlar éta stærri þorska.
Þorskur hefur þrjá bakugga og tvo raufarugga. Hann er straumlínulaga fiskur, kjaftstór og með skeggþráð á höku. Fiskurinn notar skeggþráðinn til að leita að fæðu á sjávarbotni.
Litur er breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast eru þorskar gulgráir á baki og hliðum með dökkum deplum. Ungir þorskar eru rauðleitir eða brúnir, þeir lifa gjarnan í þaraskógum og þessir litir falla vel inn í umhverfið þar. Eldri þorskar eru oft gulgráir með dökkum blettum að ofan og á hliðum og ljósari að neðan. Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og rákin er mjög greinileg.

Og þar höfum við það!