Monday 24 May 2010

Letting go

Monday - new day. New chapter - new beginning... Hang-ups to be revealed, explored and recycled....

Blek - kol - fjöður - bambuspenni - kínverskur pensill... dagurinn ber í skauti sér loforð um breytingar, umbreytingar, ný tækifæri -

Saturday 24 April 2010

Plís!!!

...let me go -

Sunday 28 March 2010

Æsland..

...hír æ komm :)

Breytingar, dauði, nýtt líf - endurnýjun!

Breytingar og sveigjanleikapraktík er eitthvað sem hefur verið ansi stór þáttur í mínu lífi undanfarna mánuði og jafnvel ár! Enn á ný er ég að breyta... pakkaði saman öllu mínu hafurtaski og setti í geymslu enda flyt ég í annað hús litlu frá því gamla þegar ég kem út á ný eftir frí. Ég er svo hamingjusöm í skólanum og í Englandi að mér finnst hálfgerð synd að vera að taka frí svona rétt nýbyrjuð!
Það eru miklar hræringar í mannspekiheimunum í Bretlandi (sem og líklega annars staðar) með annað hvort lokunum eða miklum breytingum á rekstri stofnana og skóla. Síðastliðinn laugardag var lokahátíð n.k. haldin við Emerson College í Forest Row. Skólanum, í þeirri mynd er ég og fjölmargir aðrir Íslendingar þekkja hann, hefur verið lokað og nú er að sjá hvað kemur upp úr öskunni. Um leið og fólk tengt skólanum (þ.á.m. ég sjálf) er vongott og bjartsýnt um framhaldið eru uppi miklar og stórar spurningar og áhyggjur um framhaldið. Stundum er nauðsynlegt fyrir gamlar, fúnar og þungar byrðar að leysast upp og endurnýjast til að nýtt og ferskt brum sjái ljósið. Það er hins vegar spurning um hver og hvernig er unnið úr byrðunum - við því er beðið svara!
Athöfnin á laugardaginn var falleg, einlæg og einföld - tár trega en jafnframt þakklætis láku niður marga kinnina en það var greinilegt og skýrt að Emerson College hefur snert marga strengi sem svo liggja um víða veröld. Fjölmargir er tóku til máls höfðu í hávegum orðin sem ég nota oft til að útskýra hvernig mér leið þegar ég kom á Emerson; 'It was like finally coming home'. Tíminn á Emerson var mér afar dýrmætur og hefur í raun markað mjög hvaða leið ég hef valið að feta þaðan (og jafnvel þangað!) - ég þakka fyrir mig og sendi hlýju og ást í garð skólans sem án efa hefur ræktað upp margan góðan heimsstrenginn!
Eins og svo oft áður er nú lagt að veði; Traust og jákvæðni, vilji til að skapa og rækta. Verði þinn vilji!

Monday 15 March 2010

Björk, Beta og Vivianne... á sama vegg!

Er ekki dásamlegt að sjá þær saman, þessar mögnuðu konur? Þarna er hún Björk okkar (smáborgarinn ég fylltist stolti yfir rótum mínum!) á NPG við hliðina á henni Betu. Hún er svo falleg, hún Björk sko (þótt Beta eigi sínar hliðar og svo er það Vivianne, náttúrulega)
Áfram Ísland!
Here they are together.... our beautiful Björk and 'your' beautiful Beta (that's what we call her in Icelandic) and of course.... Vivianne! Go Iceland!

... nema kannski -

... að dagurinn í dag var alveg frábær í skólanum. Fjarnemarnir (sem ég byrjaði að læra með) eru hérna núna þannig að það er heldur betur líf í kotinu :) Þau voru með kynningar í dag fyrir okkur fulltíðanemendurna sem við gáfum þeim svörun og viðbrögð við. Dagurinn endaði með 'alvöru' case study sem varð til þess að ég uppgötvaði raunveruleika þess er ég er að nema... Ég er að læra fag sem er algjörlega í samræmi við það sem ég trúi á og hvernig ég vil skoða heiminn og nálgast hann - þarna vorum við að vinna með alvöru verkfæri sem virkuðu og virka! Ég hlakka svo til að vakna í fyrramálið og halda áfram :)
ps. svo var líka óvænt kökuboð í kaffinu með blómum og tilheyrandi í tilefni af afmælinu mínu :)

Takk fyrir mig, London :)

Dagur að kveldi komin eftir viðburðaríka afmælishelgi í London. Ég tók föstudaginn rólega, átti heimamorgun (sem ég elska) og fór með lestinni inn til London eftir hádegi. Það var svo fallegt veður að ég fór út úr túpunni aðeins fyrr en áætlað og gekk í gegnum Kensington High street (og fann mér þar dömustígvél sem ég hef verið að leita að lengi) - svo í gegnum Holland Park sem er alveg dásamlegur garður, hrár og og 'umhverfisvænn' svona í miðri höfuðborginni. Þegar í hús Fjólunnar var komið angaði þar loftið af karabískum kryddtegundum, hlátrasköllum, opnum örmum og herlegheitum sem endaði með dinner og partýi um kvöldið með alls kyns áður ókunnu fólki, sem var skemmtileg tilbreyting. Eftir að hafa náð áttum á laugardagsmorguninn drifum við okkur út í bæjarferð með óvæntum afmælissnúningi a la fairy godmother, göngu og að lokum í bíó þar sem við sáum eina góða stelpumynd, rom-com eða chick flick.... hvað sem þið viljið kalla það - stutt í grátur og hlátur :) Sunnudagurinn heilsaði með sól í heiði og menningarferð í miðborgina þar sem ég heimsótti 'The National Portrait Gallery' á milli þess að flækjast á milli grænna hatta, trefla, Guinness bjórdósa og ælandi ungmenna en Írar voru að fagna degi hins heilaga Patricks á Trafalgar Square (Guð, nú verður mér hugsað til 'Stelpnanna' - muniði eftir stórborgurunum, hjónunum tveimur? ;) ;) ;) Hitti eina vinkona í 'Lönzj' og aðra í kaffi - getur bara varla verið betra, svei mér þá!

Friday 12 March 2010

Vá, vá og vá.... allt í gangi... London bíður í ofvæni og ég fer í fríið!
Mússí til ykkar allra
Á

Thursday 4 March 2010

Ástin og samveran er mér hugleikin þessa dagana og sér í lagi þar sem ég er aðallega ein og ástlaus þessi misserin. Ekki það að ég eigi ekki fullt af vinum sem elska mig jafnmikið og ég elska þau en ég meina svona karl-kona-ástlaus. Flestum stundum er ég sátt við að vera minn eigin félagsskapur og ég er orðin nokkuð vön því að sofna ein, vakna ein, borða ein, fara ein á kaffihús, ein í bíó, ein í ferðalag, hlægja ein að brandara í útvarpinu eða fara ein á tónleika. Svo koma þessir dagar þar sem ég er bara hreint út sagt komin með ógeð á að vera ein! Á þessum stundum finnst mér næstum óhugsandi að ég eigi nokkurn tímann eftir að kynnast einhverjum og kyssa á ný! Þá virðist síst auðvelt að finna hreina, fallega og óspillta ást sem ekki kemur með óyfirstíganlegri fortíð, fordómum í garð straumlínulagaðra kvenna eða hreinlega áhuga á annari ást! Juh, hvað ég er mikil kjeddling að skrifa þetta en svona líður mér sem sagt á dögunum þeim, er ég örvænti yfir því að það verði bara einn tannbursti í bollanum það sem eftir er!

...næsta dag
Þessa málsgrein hér fyrir ofan skrifaði ég í gær og ákvað að láta hana liggja í bleyti yfir nóttina! Ef ég birti hana ekki er það til að breiða yfir hvernig mér leið í gær af því mér finnst glatað að líða svona klisjulega! En ég birti hana af því að það er hluti af mér að líða eins og mér leið í gær! Ef það er glatað er það bara gott - það kom samt nýr dagur og mér líður ekki eins í dag. Ég er alveg viss um að í heiminum bíður mín prins sem getur ekki beðið eftir að hitta mig :)

Ég er barmafull af ást gagnvart umheiminum og umheimurinn gagnvart mér, ég þarf bara að taka á móti opnum örmum og gleðjast - hvar sem það verður, hvenær eða hvernig! Það eitt veit ástargyðjan sjálf, heill sé henni!

Wednesday 3 March 2010

Ástin mín

Trúi á þig, bíð
Leita að þér, bíð
Hafna þér, bíð
Sendi eftir þér, bíð
Fagna þér, bíð
Reyni þig, bíð
Tala við þig, bíð
Sendi þig út, bíð
Treysti þér, bíð
Dreymir um þig, bíð
Hylli þig, bíð
Lifi þig, er

Komdu mér á óvart - elskaðu

Ást

Hvar er hún, ástin mín?
Hvar er hann, folinn minn?

Ást í hugarfylgsnum
án formála
Ást í leynum
án skilmála
Ást í skilum
að eilífu, fokk og enter!

Komdu, ástin mín - óttast'eigi, vertu memm

Saturday 27 February 2010

Á tónleikum með mömmu :)

Hún sæta mamma mín heitin hefði orðið 57 ára í dag hefði hún lifað. Það eru þrjú ár síðan hún var kölluð á aðrar víddir og ennþá finnst mér það hafa verið í síðustu viku! Þó ég gráti enn yfir óréttlætinu og söknuði eftir henni og þess tíma sem fáum ekki að kynnast og vera saman, þá einbeiti ég mér að því að fagna í hjartanu því að hafa komið á þessa jörð fyrir tilstilli einmitt hennar og pabba og að hún hafi þó fengið þennan tíma til að takast á við þau verkefni sem henni voru ætluð í þessari jarðvist. Ég er þess líka fullviss að hún er hamingjusöm á dýrmætri leiðinni sinni. Hún flíkaði ekki tilfinningum sínum, hún mamma en hún kenndi mér margar dýrmætar lessíur og enn þann dag í dag er ég að uppgötva nýjar lessíur 'a la Oddný' :)

Ég þakka fyrir mömmu mína - í tilefni dagsins ákvað ég að fara á tónleika í kvöld og bjóða henni með mér. Þarna sat ég 'ein' með mömmu og hlustaði á fagra og viðkvæma en þó sterka röddu ungrar söngkonu með risastórt hjarta. Kannski svolítið eins og mamma er í mínu hjarta -

Thursday 25 February 2010

Lengi lifi listin!

Það sem ég er heppin og lukkuleg að vera hér og nú -

Ég skutlaðist í kvöld upp í 'Top studio' til að klára eina mynd sem ég var með í vinnu. Þegar ég var að ganga frá laust niður í mig alveg ótrúlega góðri tilfinningu, riiiiiiiisaþakklæti og hamingjusemi. Það sem ég er heppin og þakklát fyrir að geta verið hér, að skapa og skoða sjálfa mig, félaga mína og þ.a.l. vonandi nokkuð gott þversnið af mannflórunni í gegnum listsköpun. Eftir þessar vikur skil ég ekkert í mér að hafa ekki haldið áfram þarna um árið í listnáminu þótt ég hafi nú alltaf sagt við sjálfa mig að ég hafi einfaldlega ekki viljað vera listamaður og þá þegar vitað að ég vildi gera eitthvað meira í sambandi við heilun og sköpun saman!
Hins vegar hef ég líka verið að velta fyrir mér hvort þetta hafi einfaldlega verið afsökun! Líf listamannsins er ekki auðvelt. Þessi sífellda sjálfsskoðun, sjálfsrýni, rannsóknir og óumflýjanlegur spegill sannleikans tekur á bæði taugar og sál! Ég er hamingjusöm með að hafa kynnst mannspekinni með þetta í huga því samkvæmt henni snýst allt um þróun, þroska, ferðina sjálfa frekar en áfangastaðinn og fyrir vikið er maður frjálsari skapari. En hún snýst líka um aga, að fara í gegnum nálaraugað í stað þess að gefast upp þegar harðna fer í ári og njóta þess er kemur upp á yfirborðið hverri stundu. Auðvitað er alltaf gaman að skapa verk sem snertir, sem maður finnur frið í og samhljóm eða ósamræmi sem hefur áhrif í óvæntir áttir.
Já, ég spyr mig því hvort þetta hafi verið hugleysi, ótti við allt hið óþekkta sem ég hefði getað orðið, vanmat eða leti? Skiptir svo sem ekki máli héðan af nema ef vera skyldi ég geti hvatt einhvern þarna úti til að láta vaða og gefast ekki upp þegar stundirnar verða erfiðar eða leiðinlegar. Vertu frjáls og skapaðu nýtt upphaf á þeirri stundu með áframhaldandi framgöngu en umfram allt njóttu líðandi stundar og þeirrar tilfinningaflóru og dýpt er hún býður upp á -
Lifið heil!

Wednesday 24 February 2010

...og upp úr fötunni stökk froskur!

Í dag var ég að umpotta og laga til plönturnar í skólanum enda ómögulegt að hafa hálfdauðar, þurrar og óhamingjusamar plöntur í kringum sig! Það bara má ekki! Þegar ég svo tók upp fötu fyrir utan til að nota undir ónotaða potta og áhöld, stökk upp til móts við mig heiðgrænn froskur og lenti á skónum mínum. Mér brá svo að ég æpti upp yfir mig og hræddi litla greyið undir bekk! Er reyndar ekki alveg viss um hvort þetta var froskur eða karta en eftir að hafa leitað á netinu eftir upplýsingum sýnist mér þetta hafa verið alvöru froskur! Prinsinn stekkur á mig og ég bara æpi yfir mig og skelli hurðum.... er það furða? ;)

Tuesday 23 February 2010

Hún Ástríður!

Áður en ég hélt til Wales í síðustu kom ég við á Gatwick (enda alveg í leiðinni ;) og hitti ofurkæra vinkonu mína á afmælisdaginn hennar, ásamt nokkrum vinum. Fyrir utan augljósa ánægju og gleði yfir að fá að knúsa vini sína og fagna afmælisdegi þeirra og fyrir utan það að Baba fékk rauðkálið sitt, var ég svo heppin að fá hana Ástríði loks í hendurnar þar sem hún var uppseld þegar ég fór frá landinu skömmu áður! Ég byrjaði svo að horfa á sunnudagskvöldið og er búin að vera að halda aftur af mér að klára ekki allan pakkann í einu :) Mikið ofsalega finnst mér þetta vel heppnaðir og skemmtilegir þættir... fullkomin afþreying fyrir íslensk hjörtu! Nú á ég bara tvo þætti eftir og get varla beðið eftir að horfa á þá á eftir.
Þegar ég er spurð hvað nafnið mitt þýði (ég nota yfirleitt bara Ásta enda Aðalheiður, jafnfallegt og mér finnst það nafn, dálítið stór biti að melta!) segi ég að það þýði 'Luuvvvvv' en hún Erla mín sagði strax 'Passjón' og mér finnst það eiginlega bara skemmtilegra - samanber:
'Nafnið Ásta kemur fyrir í Landnámu en móðir Ólafs helga Haraldssonar hét Ásta' segir á www.snara.is - vefbók og síðar er bætt að hugsanlega sé Ásta stytting á Ástríði. Áfram Ástríður!

Monday 22 February 2010

Af hverju?

Ég velti fyrir mér þessa dagana af hverju? Af hverju að blogga? Upphaflega átti þetta að vera dagbók yfir ferðina miklu í leit að sjálfri mér og mig langaði að deila því með fjölskyldu minni og vinum og til að gera mér betur grein fyrir hvað ég væri að upplifa, með því að vera meðvituð um hvernig ég kem því frá mér.
Þar sem ferðin hefur breyst í dvöl og áframhaldandi þróun á því sem þá þegar var hafið í stað nýrrar og ókunnugraar ferðar og áfangastaðurinn því ei lengur útgangspunkturinn, velti ég því fyrir mér hver tilgangurinn sé!
Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann um af hverju og af hverju ekki! Í fyrsta lagi finnst mér gaman að skrifa. Í öðru lagi finnst mér roooosalega gaman að lesa um hvað vinir mínir eru að gera, samanber hann Finnsi mágsi og hún Svava mín sem ég var í heimsókn hjá síðustu daga í Wales (myndirnar eru einmitt úr göngunni okkar um hæðir og engi Rhos með áningu á þessum skemmtilega bekk). Kannski ég sé að vona að fólkinu mínu finnist líka gaman að lesa um hvað ég er að gera! En það miðast þá líklega við að ég deili því sem ég er að gera því það sem mér finnst sjálfri sérstaklega ánægjulegt er að lesa blogg þar sem fólk er hreinskiptið, hugrakkt og fyndið en umfram allt tilbúið til að deila í alvöru! Þar kemur mitt vandamál inn; ég veit ekki hversu tilbúin ég er að deila á netinu mínum innstu hjartans málum. Í annan stað er ég að spá og er í raun óviss um hvað mér þykir í lagi að setja á netið, þá meina ég hvað varðar andlegan þroska og það að setja upplifanir sínar í orð sem ekki verða svo auðveldlega tekin til baka (ef á þyrfti að halda!) en það er kannski það sem mig langar til að deila hvað mest með mínu fólki :)
Kannski er ég bara að flækja málin um of! Kannski ætti ég að hætta að spá og spökulera og bara skrifa... þótt ekki væri nema bara um veðrið! Eða ástina! Eða bara nýju skóna mína :)

Thursday 11 February 2010

Gaman að vakna á morgnana!

Hann sagði mér: 'Á hverjum degi vakna ég og hugsa; djöfull er gaman að vakna, að vera til... frábært að fá að vera til enn einn daginn'

Þetta er svo góð heimspeki, einföld en sönnust af öllum sannleika - takk fyrir að deila þessu með mér og okkur ef þú skyldir lesa þetta :)

Sunday 31 January 2010

Vetrarhrím (Bara svo þið haldið ekki ég sé stungin af!)

Það er svo langt síðan ég skrifaði síðast að ég veit varla hvar ég á að byrja!
Síðastu vikur hafa einkennst af fallegu vetrarhrími, bæði úti og inni með fylgjandi hrími í fingrum mínum enda margt að melta. Skrítin en áhugaverð byrjun á ári - satt best að segja líður mér eins og það séu 5 mánuðir búnir af árinu en ekki 1! Ég er bæði búin að ferðast til Danmerkur og Íslands með tilheyrandi svefnleysi og tilfinningafári (ótrúleg gleði, söknuður, vonbrigði, ást og streita - allt í sama pakkanum)! Einnig fór ég í jarðarför hér (tengt skólanum) og tilheyrandi upplifanir og tal fylgdu í kjölfarið; um dauðann, missi, lífið, tilganginn, ástina og fleira.
Það er mikið að gera í skólanum og mikið af aukakúrsum í boði sem ég hef verið dugleg að sækja. Heimavinnan er ekki af verri endanum né af skornum skammti :) Leirinn var hnoðaður óspart í þessari viku til að klára 4 verk sem ég var með í gangi og svo eru önnur verk sem bíða í mismunandi miðlum (aðallega málningu þó!) Dagbókarskrif og dagbókargerð í sínum víðasta skilningi eru stór þáttur í náminu sem er meira eins og portfolio-gerð og í raun bíógrafía yfir námið í sjálfu sér og allt sem maður fer í gegnum!
Ég er svo hamingjusöm og heppin að vera hér. Mér líður heima.

Thursday 21 January 2010

Upp af værum draumi

Við komuna á Kastrup í gær, fannst mér ég bara vera að vakna upp af ljúfum draumi. Það er eins og ég hafi aldrei farið frá Danmörku - eða amk eins og það hafi bara verið í gær. Gleymdi reyndar að færa dönskuskúffuna ofar í hilluna áður en ég lagði af stað en rankaði við mér á vellinum þegar ég heyrði allt í einu danska seli tjá sig og gantast. Það var svo í alvöru eins og ég væri með kartöflu í hálsinum yfir dagin þótt það kjaftaði á mér hver dönskutuska þegar ég hitti krakkana á leikskólanum eða jafnvel eins og ég væri frá Indlandi, með hálsmyndaða -oa-hreiminn alveg á hreinu ;)
Eins og ég er búin að vera í skýjunum yfir skólanum síðustu daga og því að vera komin nákvæmlega á þann stað sem ég á að vera að gera það sem ég á að vera að gera, sem nærir mig svo og hrærir, já - þá var svoooo gott að koma hingað 'heim' og knúsa litlu fjölskylduna mína. Eftir ljúft morgunknuðl var 5 manna morgunverður kærkomin byrjun á fallegum og mjallhvítum degi :)

Monday 18 January 2010

Today's story

Skólinn hófst í dag - ég er í 7. himni.
Dagurinn byrjaði á 'Therapeutic use of story' þar sem við skoðuðum hugtakið 'saga' í allri sinni dýrð. Hvað er saga? hver er tilgangur sögu? hver er sögumaður? hver er hlustandi? hver eru mörkin á milli sögumanns-sögu-hlustanda? Hver er okkar saga? hver er saga meðferðarleitanda? Heimspekilegar pælingar með útgangspunkti frá meðferð eða þerapíu - alveg dásamlegt að byrja á þessu viðfangsefni. Í feimni minni hef ég nefnilega alltaf verið skíthrædd við að segja frá, segja sögu, hvort sem það er í orðum eða öðrum formum, hvort sem það er mín saga eða aðrar sem ég hef lært og þ.a.l. verið hrædd um að gleyma eða rugla! Að sama skapi er ég svo heilluð af þessu formi, þ.e 'sagnalistinni' sem slíkri, hvort sem það á við rímurnar okkar gömlu, persónulegar sögur hvers og eins eða sögur frá svörtustu Afríku sem sagðar eru í kringum eld með tilþrifum. Seinnipartinn skoðuðum við málverk eftir vissum kenningum og gerðum æfingar sem þjálfa vitund, meðvitund og skynjun.
Í kvöld fór ég svo á fyrirlestur um mannspeki og næringu á Emerson, þar sem ég lærði undirstöður mannspekinnar fyrir allmörgum árum.
Hópurinn í skólanum er góður, við erum 10, þ.a. 2 karlmenn sem gerist nú ekki á hverju ári! Það er gott að fá smá mótvægi við allri mýktinni þótt við konurnar séum góðar út af fyrir okkur. Og svo var sjarmerandi kennarinn líka karlkyns þannig að dagurinn var í alla staði í jafnvægi :)
Jah, þvílíkur léttir að stíga í gegnum flóðmúrinn og anda inn í silkimjúkt lærdómsflæðið -

Thursday 14 January 2010

Íhuga - frjósa - flæða

Lukkan yfir mér þarna á miðvikudaginn að fara ekki í afleiðaferð í Ikea (mikil hætta á eyðslu sem ekki má!). Ég hitti vin minn óvænt í kaffilögg og út úr því kom svo partýboð í tilefni gamlársdags í Serbíu, hjá serbesknum vini vinar míns. Þar var sem sagt komið saman gott fólk af ýmsum þjóðarbrotum; Íslandi, Serbíu, Englandi, Grikklandi, Hollandi og Dóminíska lýðveldinu! Allt fór vel fram og fallega og gott að finna félagslegt netið myndast og stækka hægt og bítandi. Þótt ég kvarti yfir að vera ein á stundum, verð ég að viðurkenna að það er líka þægilegt, engar væntingar, engar ögranir! Nú hverfur frost úr jörðu og sjálf er ég að brjótast hægt og bítandi út úr hermísku félagsmynstri, ögra sjálfinu með því að kynnast nýju fólki. Það er áhugavert að kynnast fólki og komast nær kjarna hvers og eins, framhjá eða í gegnum fyrstukynnaupplýsingaöflunina og einnig að leyfa fólki að komast að kjarna þínum (mínum!). Þá finn ég flóðin nálgast, eins og gjarnan gerist eftir miklar úrkomur. Ég hlakka rooooooooosalega til að byrja í skólanum og leyfa öllu því sem er að brjótast um í ástríðufulla en viðkvæma hjartatetrinu mínu að koma upp á yfirborðið og flæða fram í eiginlegu formi og efnislegri umbreytingu.

Sunday 10 January 2010

Hann Lúlli minn!

... enn og aftur þarf ég að leita að heimili fyrir hann Lúlla minn - hann hefur verið í fóstri hjá góðri vinkonu sem getur ekki haft hann lengur! HANN ER YNDI :)
Hver og hver og vill?

Enn hefur Þór tökin!

... ég vanda mig á hverjum degi við að taka hversdagsleikanum eins og hann er og lifa algjörlega í núinu! Ég get þó ekki annað en viðurkennt að ég er pínu pirruð yfir hvað veðrið stjórnar miklu hér og hefur mikil fyrirfram áhrif, að mér finnst! Ég hlakka svo til að byrja í skólanum og komast í rútínu, að það er hálffúlt að skólanum sé frestað á morgun vegna yfirvofandi snjókomu! Ég fór t.d. í 1,5 klst göngu í dag og var 2 klst úti að moka í kringum húsið okkar í dag... Ekkert að veðri, ekki einu sinni kalt! Jú, það er ennþá mikill snjór en ekki nægur til að fresta daglega lífinu, finnst mér! Væri ekki líka skynsamlegra að gera ráð fyrir að lífið haldi áfram og fresta þá bara að morgni hins eiginlega dags, ef ástæða er til?!


Það er líka áhugavert að hlusta á útvarpið - reyndar ágætt að ég heyri miklu meira talað um veðrið og tengd mál (færðina etc) heldur en Ísland og hversu ómöguleg við erum! Í morgun þegar ég fann til morgunmatinn minn hlustaði ég t.d. á þátt þar sem fólk hringdi inn og þar voru sérfræðingar að kenna fólki að spara orku, keyra jeppa, bjarga dýrum og komast af almennt í kuldanum! Einnig hvernig á að búa til göt í frosin vötn til að nálgast vatn (bræða gat á ísinn - ekki brjóta, af hættu við að detta ofan í !) Þar hringdi einnig inn kona sem ætlar að opna neyðarverslun í þorpi ekki svo langt héðan, því það er ekkert kaupfélag í þorpinu (né næsta þorpi!) og almenningssamgöngur ekki virkar þannig að fólk þarf að ganga 8 km (í snjónum) til að ná í nauðsynjavörur, þ.e. þeir sem ekki keyra! Það er alveg í takt við það að fara í búðina, fólk er greinilega að hamstra því fyrir miðjan opnunartíma dagsins eru t.d. brauð, mjólk, grænmeti og egg iðulega uppurin! Ekki það ég vilji vera hrokafull en við verðum nú aðeins að sýna smá skynsemi! Ég segi bara eins og gamli pólski karlinn í fréttunum; 'nú hleypur fólk upp til handa og fóta við minnstu snjókomu eða frost' - við erum orðin svo góðu vön að við kunnum bara ekki á þetta lengur! Þetta er mesti vetur hér í Bretlandi bara í 42 ár, minnir mig að ég hafi heyrt einhvers staðar - það er þá fullt af fólki á mínum aldri sem hefur bara aldrei upplifað almennilegan vetur á ævinni sinni! Að hugsa með sér...

Gömlu brýnin -

Nú er ég búin að sjá tvær myndir í bíó hér í Bretlandi sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi þar sem þetta voru engin meistarastykki - meira létt afþreyingarefni! Þó ég hafi í raun greitt fyrir herlegheitin eins og fyrir leikhúsferð heima (amk hér áður fyrr!). Í fyrri myndinni fóru Hugh Grant og Sarah Jessica Parker hamförum en í þeirri síðari fóru Alec Baldwin og Meryl Streep með aðalhlutverkin. Ótrúlegt en satt, ég er orðin fullorðin - eins og þau! Mér fannst ég alltaf vera 'stelpan' og þau fullorðna fólkið en nú sé ég t.d. að Grantarinn er að eldast... ekki svo mikið eldri en ég sjálf, fullorðna konan! Jú, ég viðurkenni að síðarnefnda parið eru af kynslóð foreldra minna, frekar en minni en þetta er áhugavert, engu að síður og fær mann náttúrulega til að hugsa! Mun ég verða foreldri? hvernig foreldri þá? verð ég gömul? hvernig 'gömul kona' verð ég? Auðvitað veltur þetta allt á sjálfri mér eftir allt saman, svo lengi sem ég held heilsu og lífi, yfir höfuð - hvað vil ég? Hvernig kona vil ég vera?

Friday 8 January 2010

Maður er manns gaman!

Djö... er gaman að hitta fólk! Ég hef verið svo félagslega einangruð, þannig séð (skrifaði fyrst 'einanguð' - spurning hvort það sé 'freudian slip' eða hvað; einan guð!), að mig hefur undanfarna daga, þyrst hreinlega í félagslíf! Í þessu veðralamasessi, lengist biðin eftir að námið hefjist og skólinn tilkynnti t.d. í dag að það yrði ekki skóli á mánudaginn. Men, hvað ég var súr yfir að vera ekki farin til hennar Böbu minnar í Wales eins og ég ætlaði fyrr í vikunni en þorði ekki af ótta við að komast ekki til baka og geta þar af leiðandi ekki byrjað á réttum tíma, svona eftir allt saman! Til allrar hamingju hitti ég einn vin minn í gær í kaffispjalli í bænum og aðra vinkonu í dag í meira kaffispjalli og viti menn; sál mín lyftist og gleðst - mér finnst ég vera hluti af stærri heild! Maður er manns gaman er eitthvað sem sannast best er skortur er á!

Wednesday 6 January 2010

Nú er það alvöru!

Það er svolítið skondið að vera Íslendingur í vetrinum hér í Bretlandi - t.d. halda margir að mér geti nú varla fundist vera einhver vetur hér, að ég hljóti að vera vön svo ægilega köldum og vesælum dögum veturinn út á landinu elda og íss að veturinn hér sé barnaleikur einn! Sem er á margan hátt rétt, þ.e. að því leiti að hér fer allt úr skorðum við minnsta snjófall, skólum lokað, almenningssamgöngur leggjast niður og fór þarf oftar en ekki að fara í vinnuna! Kuldinn hér er afstæður í samanburði við Ísland, það er svo rakt hér að minni kuldi á mælinum þýðir samt meiri kuldi í kroppnum. Ég er viss um að mér er alveg jafn kalt og hverjum öðrum sem ekki er vanur köldum vetrum. Helsti munurinn er að hér er fólk ekki undir þetta búið, götur eru ekki ruddar, það er ekki saltað eða sandað og ég hef t.d. aldrei á ævinni séð jafn marga detta kylliflatir á rassgatið eins og um daginn þegar rigndi svona ofan á allt saman (eins og á eftir að gerast einhvern næstu daga, næstu viku). Í dag var allt í lamasessi í Bretlandinu, ábyggilega eins og í fleirum Evrópulöndum og ég verð að segja að nú er þetta alvöru! Það hefur fallið 20-30cm snjór, þykkur og blautur og það snjóar enn og frystir á nóttunni þannig að gamanið er rétt að byrja! Flugvellirnir eins og t.d. Gatwick og Stanstead eru mas lokaðir! Það er dásamlega fallegt úti engu að síður, ekki of kalt, allt hvítt og stillt... hreinlega eins og landið, og kannski landinn, sé undir snjóhvítri, fagurri, ofurmjúkri dúnsæng. Þessa mynd tók ég á göngunni í dag...

Sunday 3 January 2010

Öðruvísi lykt meðal annars!

Rólega en ljúflega geng ég inn í nýtt ár, 2010, hef eytt fyrstu dögunum í að koma mér betur fyrir í herberginu mínu, ganga og ganga (eftir mikla kyrrveru síðustu 10 daga!) og hugleiða! Já og ekki má gleyma internetinu sem hefur fengið drjúga athygli :)
Nýjársmorgun var dásamlegur enda veðrið með eindæmum síðan, glampandi sól og brakandi kuldinn. Ég vaknaði snemma og fór í morgungönguna hér með Coombe Hill road sem er langur einkavegur með uþb 50 villum (taldi þær í gær!) - Vegurinn er fallegur, við skóglendi og engi og það var dásamlegt að rekast á dádýr, refi, ótal fugla og svo bara venjulegar kisur á göngunni, staldra við í kantinum og láta sólina verma kropp og sálu.
Það er svo sérstök lykt í vetrarloftinu hér í Englandi; veit ekki hvort þetta er bara veturinn en ég man amk ekki eftir þessu svona sterklega hér áður fyrr! Nema kannski skynfæri mín séu næmari! Sérstök blanda af gaslykt og reyktri furulykt....

Friday 1 January 2010

Sannleikurinn er sagna bestur!

'Að sjá hlutina eins og þeir virkilega eru, að sjá lífið í sönnu ljósi' - Það er stefna hugleiðslutækninnar sem ég lærði og naut yfir jólin!

Frá 20. des. s.l. á vetrarsólstöðum til gamlársdags á fullu tungli, þagði ég og hugleiddi - gladdist og þjáðist í senn. Á Vipassana, 10 daga þöglu hugleiðslunámskeiði eða 10 days silent retreat in East Anglia...... þar var ég! Fyrsta ræs á morgnana var kl. 04 og hugleiðslan byrjaði kl. 04.30 og stóð með matarhléum og fyrirlestrarhléi fram á kvöld, ljósin slökkt um kl. 21.30. Þetta var bæði dásamlegt og hræðilegt og allt þar á milli en ég er himinlifandi að hafa farið og ánægð með fræðin, tæknina og árangurinn. Ég mæli með þessu og þeir sem vilja kynna sér málið frekar, endilega kíkið á heimasíður eins og http://www.dipa.dhamma.org/, http://www.vipassana.com/ eða http://www.dhamma.org/.

Það er skrítið og áhugavert að koma út úr svona dvöl og mikilli samveru með engu nema sjálfum sér að algjöru leiti í 10 daga. Einnig eftir að deila herbergi með 5 öðrum konum í algerri þögn (engar augngotur eða handapat), engin skriffæri, bækur, tónlist, tölvur, símar eða annað sem annars dreifir athygli okkar svo ötullega í hversdagsleikanum. Það er boðið upp á létt en gott fæði og morgunmaturinn kl. 06.30 var algjörlega í uppáhaldi. Ég er nú opinberlega farin að borða hafragraut, ekki seinna vænna fyrir hálffertuga konuna! Ekki að það sé það eina sem komið hafi út úr dvölinni en....

Gleðilegt ár 2010... og ég meina það!

Árið 2009 hefur verið ótrúlega lærdómsríkt, þungt en afdrifaríkt og fullt af jákvæðum skrefum í rétta átt. Takk fyrir það.
Ég óska okkur öllum af öllu lifandi hjarta áframhaldandi jákvæðum skrefum í rétta átt, góða átt - gleði, friðar og umfram allt kærleika og sannleika.