Sunday 16 November 2008

Ástungan...

Hef ákveðið með sjálfri mér að það sé kominn tími til að stinga á! Út úr fylgjunni skal ég á komandi dögum...

Saturday 12 July 2008

Fylgjan

Eg er i fylgju. Fylgju nys lifs sem bedid hefur i 11 ar! Loksins hof eg namid sem eg hef horft til svo lengi - Art therapy vid Tobias School of Art and Therapy (www.tobiasart.org).
Faeding a naesta leiti...

Nyja numerid mitt i Bretlandi er +44 (0) 7501 952 553

Mussimuss,
ykkar A

Sunday 15 June 2008

Alparósin

Skilið átt þú allt mitt hrós
sem ást og hlýja vefur.
Þú ert eins og alparós
sem angan ljúfa gefur.

Mig langar að deila með ykkur þessu fallega ljóði sem heldri maður samdi mér til heiðurs fyrir tveimur árum. Þessi maður kemur á heimaslóðir mínar reglulega með ótrúlega göfugum og fallegum hópi.

Saturday 14 June 2008

Jú, það verður að segjast að ég hef ekki staðið mína plikt hvað skrifin varðar, skal viðurkenna það Sigurtjúlli minn. Bið bara að heilsa bróður þínum 'onum Sigurdúlla - vona þið bræður látið sjá ykkur hér á Menningarveislu Sóló (sjá http://www.solheimar.is/) - endilega takið Sigselfi, fóðurbróður ykkar með því hann kann svo vel við sig í sveitinni.
Ég, Sibbý sjálf, fór að sjá nýjustu kvikmynd vinkvennanna í Nýju Jórvík - bara ágætisafþreying með nokkrum góðum samtölum en vegna ótæmdrar gagnrýni (fyrir að ætla að sjá þessa 'ræmu') hef ég hugsað mikið út í það hvers vegna það gefur okkur hina minnstu fróun að horfa á eitthvað sem manni finnst algerlega út í hött og hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Það kannski helsta sem kemur til mín fyrir utan það augljósa (þ.e. til að flýja raunveruleikann) er að þetta er kannski bara ýktari mynd af því hvernig við mannfólkið erum í rauninni, frekar en það að við séum alls ekki svona! Það var amk athyglivert að sjá fjölda kvenna flykkjast á myndina í minni og stærri hópum, uppstrílaðar með hvítvínslögg í tánum (kl. 19 nb.) - í nýjum (bleikum) skóm og tilbúnar að hlægja sig máttlausar að vitleysisgangnum í vinkonum okkar. Má vera líka (og sorry strákar, I'm really on your side) að við þurfum bara stundum að fá að vera pínulítið 'silly' og hafa gaman af því að horfa á einhverja yfirborðskennda vitleysu sem endurspeglar samt pínu í lífið á milli kynjanna í sinni ýktustu mynd án þess að verða óendanlega dramatískt eða dapurlegt. Því það verður að viðurkennast að hjá þeim stöllum, er alltaf ljós við enda ganganna, alltaf eitthvað til að hlægja að, trúa á eða vonast eftir og eftir allt; er það ekki það sem við þurfum á að halda pínulítið? eða hvað.....?

Sunday 27 April 2008

... hvað er satt? Hver er sannur?

Hvað er hið sanna líf? Hvers vegna erum við fædd á þessa jörð? Hvaða fólki kynnumst við og umgöngumst og af hverju? Hvað höfum við hvert öðru að kenna? Hvernig veit maður hvað gerist hjá hinum, í huga þeirra og sál? Hvað gerist í framhaldinu? Hvað gerist á nóttunni? Af hverju dreymir okkur? Af hverju tökum við ekki alltaf réttar ákvarðanir? Ef allar ákvarðanir eru réttar á þeim tíma sem þær eru teknar, af hverju eru þær ekki alltaf til góða? Af hverja leiða þær til einhvers annars en þess er þeim var ætlað í upphafi? Djö... er ég leið á þessum spurningum!

Oh hvur assgodd.... þetta er myndin sem ég fékk upp fyrst allra þegar ég sló inn 'truth' á gúggöl! Skál!

Tuesday 22 April 2008

... og hana nú!

... hér hafið þið nýja færslu og nýtt útlit. Nú verður tekið á því ;o)

Mússí
ykkar Á

Hvenær er fræjunum sáð?

Um daginn fór ég á minningartónleika til heiðurs tónlistar og minningar Bergþóru Árnadóttur í Grafarvogskirkju. Tónleikarnir voru hreint út sagt stórkostlegir og magnað að heyra og upplifa tónlistina hennar í nýrri mynd. Sumum lögunum var ég búin að steingleyma en önnur lifðu sterkt í minningunni því við systurnar fórum ungar á tónleika á Siglufirði og vorum stoltar af að kaupa spóluna hennar (nb. kasssettur) og fá eiginhandaráritun enda þekktum við listamanninn frá æskuslóðunum. Hún Bergþóra passaði mig nefnilega sem barn. Á tónleikunum skaust niður í mig tilfinning og hugsun um að líklegt væri að við höfum sungið saman, Bergþóra, Jón Tryggvi, Þorvaldur og ég og kannski fleiri krakkar þegar við vorum í pössun. Og hvað ég varð þakklát og hugsi; hversu mikilvægt það er að sá fræjum listarinnar, tjáningar og tilfinninga hjá börnum strax við fyrsta tækifæri og hvetja þau til að finna andagift sína í listinni og tjáningunni og þannig gera þeim kleift og líklega auðveldar með að tjá tilfinningar sínar á hvaða hátt sem hentar þegar síðar dregur...

Wednesday 20 February 2008

sonna, sonna...

Já, tilvistarangst, það er rétta orðið! Engar áhyggjur samt kæru vinir (sett inn vegna mikilla áhyggjuviðbragða nokkurra vinkvenna) Mér er sagt þetta sé bara 'partur-af-programmet' og hver veit nema ég uppgötvi eða jafnvel finni upp eitthvað nýtt sem þjónar mannkyni voru. Hvort sem það verður eitthvað fýsískt eða já, bara almennt huglægt frelsisathvarf, ávallt til þjónustu reiðubúin! Ykkar einlæg, sem aldrei fyrr í stöði, Sibbýsjálf <><

Monday 18 February 2008

Er það nema von?!

Þeir sem þekkja mig kannast kannski við að ég eigi til að fyllast valkvíða, óákveðni, útúrsnúningaröskun, flækjuáráttu og öllu sem þessu fylgir! Sér í lagi þegar horfir fram á ófarin veg, ófarin og óskrifaðan! Nú stend ég frammi fyrir einum slíkum... eða réttara sagt nokkrum slíkum... og enn sem fyrr stend ég á gati og að því er virðist get mig hvergi hrært! Ekki það að ég er nokkuð vön, hef oft valið að standa á gati og oftar en ekki orðið m.a.s. nokkuð óróleg ef ekki er gat í nálægð! Nú hins vegar líður mér eins og ég standi á síðasta gatinu! Það er hvorki pláss, né tími, fyrir fleiri göt. Það er annað hvort að detta bara ofan í þetta gat og sjá hvað setur (opna kannski augun 'down under') eða taka skrefið til fulls hinn eina sanna veg. Til þess þarf ég allt að því ofskammt af hugrekki og óbilanditrú og traust. Hvar sem ég finn það!
Að vera einn í 33 ár er þægilegt á margan hátt, einmanalegt en þægilegt. Það er enginn og ekkert sem hefur áhrif á hvað þú vilt og ætlar að gera! Nema þú sjálfur og umhverfið sem þú velur að vera hluti af en það umhverfi er á endanum óháð! Þú getur gert allt og ekkert, bara eftir því hvernig þér líður! Hér væri einmitt upplagt að fara út í sálma um sambönd og ástina en nei; Bobba bjútí segir sæl og skilur eftir sig bros á þakklátri vör fyrir umheiminn... djöst ða vei it is!

Saturday 9 February 2008

Fallegasta land í heimi!

Ísland hefur skartað sínu fegursta undanfarnar vikur á milli þess sem það hefur sýnt sínar myrkustu hliðar. Í síðustu viku var ógurlega kalt, nokkuð stillt en bjart og fallegt. Í þessari viku höfum við 'mátt þola' hvern storminn á fætur öðrum, sjónleysi sökum fjúks og ófærð á vegum flestum. Á laugardaginn fyrir viku hóf ég vinnu kl. 06 um morguninn og þá var frostið í -21°C sem er líklega það mesta sem ég hef upplifað síðan í Þórsmörk um aldarmótin s.l. þegar það fór niður í -27°C. Guði sé lof fyrir logn því dagurinn var sérlega fallegur! Í gær var ég veðurteppt í höfuðborginni, komst með naumindum yfir fjallið í morgun og nú bendir Siggi Stormur okkur á að 'teypa' gluggana í kross ef eitthvað skyldi nú koma fljúgandi inn um gluggana hjá okkur! Upplífgandi, ikke? Hressa týpan þarf nú aldeilis að þakka fyrir góða veðrið síðasta sumar og vonandi enn betra í sumar sem kemur -

En almáttugur minn; allan stein tekur úr í kvöld þegar þrumur og eldingar hleypa upp öflum sem ég bara hreinlega mundi ekki eftir, rafmagnið blikkar, húsið hriplekur og hriktir í! Haglél á stærð við egg lemur á rúðunum og manni bara hreinlega stendur ekkert á sama! Það er eins og hún vinkona mín StellaBella segir; c'est ca le truc, en Islande - en fin de la journée, tu ne sais pas si tu vas sortir de la route ou non!!! eða 'það er nú málið á Íslandi - maður veit aldrei hvort maður keyrir út af eður ei! ;o)
Jú, jú - við eigum kannski fallegasta land í heimi en er þetta ekki orðið ágætt bara svo við getum farið að tala um eitthvað annað en veðrið; já, kannski eins og ættfræði?!

Monday 4 February 2008

Af hverju þorskur?

Í dag var þorskur í hádegismat og spunnust umræður um kvikindið í kjölfarið.
'Þorskur er miklu betri en ýsa' - 'Ég vil ekki sjá þorsk' - ´Þetta er bara ormafæða' og fleira í þessum dúr fauk um hæðir! Af hverju ætli það séu svona skiptar skoðanir um þorskinn? Og af hverju skyldum við ekki borða hann meira hér á landi en raun ber vitni þrátt fyrir að flytja hann út í tonnavís? Ætli það sé bara vegna ormanna eða ætli það sé önnur og meira viðeigandi skýring á þessu? Mér dettur í hug að þar sem við fluttum út þorskinn til að skapa verðmæti, höfum við hreinlega ekki 'tímt' að borða hann sjálf, heldur borðað bara 'restarnar', þ.e. ýsuna, í staðinn. Getur verið verið einhver fótur fyrir því? Hér koma nokkrir molar um þorskinn sem ég fann á netinu; verð'ykkur að góðu :o)
Þorskur (fræðiheiti: Gadus) er vinsæll matfiskur með þétt, hvítt kjöt. Á Íslandi er almennt átt við Atlantshafsþorsk (Gadus morhua) en hann er algengur í kringum landið. Hann er botnfiskur og er algengastur á 100-400 metra dýpi.
Þorsklifur er brædd í þorskalýsi sem inniheldur A-vítamín, D-vítamín og Ómega-3 fitusýrur.

Smáþoskur étur ýmsa hryggleysingja eins og ljósátu, marflær og rækju en þegar hann stækkar étur hann loðnu og síli. Stórir þorskar éta karfa, smáþorsk, skráplúru, kolmunna, ýsu og síld. Margir fiskar og sjófuglar éta þorskseiði. Selir, hvalir og hákarlar éta stærri þorska.
Þorskur hefur þrjá bakugga og tvo raufarugga. Hann er straumlínulaga fiskur, kjaftstór og með skeggþráð á höku. Fiskurinn notar skeggþráðinn til að leita að fæðu á sjávarbotni.
Litur er breytilegur eftir aldri og umhverfi en oftast eru þorskar gulgráir á baki og hliðum með dökkum deplum. Ungir þorskar eru rauðleitir eða brúnir, þeir lifa gjarnan í þaraskógum og þessir litir falla vel inn í umhverfið þar. Eldri þorskar eru oft gulgráir með dökkum blettum að ofan og á hliðum og ljósari að neðan. Bakuggar þorsks eru þrír og raufaruggar tveir, eyruggar eru stórir og rákin er mjög greinileg.

Og þar höfum við það!

Wednesday 30 January 2008

Bobba bjútí

Jahérna hér - það er ekki af manni skafið; ég sem hélt að kærleikurinn væri nóg og flensan myndi bara fljúga burtu í eigin endurnýjun og skilja mig eftir nýja konu þar sem ég er búin að gera flestallt til að svo megi verða, bæði andlega og líkamlega! En nei, hún bara hangir í mér eins og öngull í rassi! Nú eru komnir fjórir dagir með hálfgerðu óráði og ég er farin að ímynda mér alls kyns vitleysu, hversu langt ég á eftir, hvað gæti gerst ef hitt og þetta etc... forði mér allir heilagir og ég segi nú bara eins og hún Lolla í Brúðgúmanum (með mikilli ákveðni og urri); HÆTTU'ÐESSU!

'Bjútíið' í veikindum sem þessum er að maður fær svo góðar kveðjur og þessi mynd fylgdi einni þeirra í dag. Ég er allt önnur nú þegar, bara hitinn rokinn og ég er mas búin að ryksuga kotið!

Það er svo margt sem flýgur gegnum hugann þegar maður liggur heima, ýmist með óráði eða óþreyju yfir að geta ekki unnið hörðum höndum að hugðarefnunum og sinnt vinnunni. Dramatíkin smeygir sér inn aftan til og ég skil bara vel fólk sem hræðist það að finnast látið eða slasað e-s staðar eftir að liggja í nokkra daga - aaaaaaaleitt! Hvað það er nauðsynlegt að eiga góða að og að vera áttur að ... forð'okkur allir heilagir!

Jæja, Bobba bjútí segir sælsæl í bili <:><

ps. hvað segja ekki veðurguðirnir? Áfram stormur, tjah, jah, nú er ég hissa!


Saturday 26 January 2008

Kærleiksflensan!

Ófærðin virðist ætla að hertaka kroppinn líka því kuldahrollur, sviti og önnur ólíðan (aka endurnýjun!) gerir vart við sig í dag! Það er því tilvalinn dagur til að hugsa! Og vera! Og drekka te! Og endurnýjast! Hressa týpan aðeins í lagningu!

Ég fór í jarðarför í gær með félögum mínum héðan til fylgdar ungri konu sem var að vinna með okkur. Hún háði ótrúlega baráttu við þetta erfiða, margslungna og að því er virðist duttlungafulla krabbabein sem mamma lét í minni pokann fyrir. Hún hélt úti heimasíðu með hugleiðingum um lífið og tilveruna, bæði um 'krabbann' eins og hún kallar hann en svo bara um lífið sitt almennt! Það er ótrúlega dýrmætt að lesa bloggið hennar og sjá hvað hún var opin með þetta og tilfinningar sínar og líðan.
Þetta fær mann auðvitað til að hugsa um lífið og hvað það er ótrúlega dýrmætt að eiga að félaga (í flt) í þessum heimi og vera hreinn og beinn! Enn fremur hvað það er sorglegt að við skulum eyða orku og ooooooooofurdýrmætum tíma í að vera ósátt, taka þátt í, í raun óheiðarlegum, samskiptaleikjum, keppa án umburðarlyndis og bara almennt að trúa því að fólk sé slæmt og að við séum hverju öðru betra! Auðvitað eru allir 'betri' í einu eða öðru en næsta lifandi vera en allir eru þá líka 'verri' í einhverju (af því að næsta manneskja er 'betri'), ef við viljum horfa á þetta með raunmannlegum augum nútímans! Við erum öll fædd á þessa jörð af einhverjum ástæðum, ekki bara í litla þorpinu eða stórborginni sem 'hefur ekkert að gera með jörðina að gera' (sem er náttúrulega helber vitleysa!) heldur af því að við erum sameiginlega hluti af stóru verki! Stóru verki sem á sér stað í undurfagurri og nærandi veröld með mismunandi hindrunum sem við getum 'unnið' á! Haldiði virkilega að Yfirvaldið hafi sett okkur hér saman til að bara hlægja að okkur þegar okkur mistekst?! Það skapaði okkur og við sköpum okkar líf með þess aðstoð! og hvers annars!KÆRLEIKSAUGUN NÆRA OKKUR MEST OG BEST OG GERA OKKUR KLEYFT AÐ KLÍFA JAFNVEL STÆRSTU FJÖLL HIMINGEIMANNA ALLRA! STÆRRI EN OKKUR GRUNAR OG MUN GRUNA!

ps. ég fann þessa mynd á vef Kærleikssetursins (http://www.kaerleikssetrid.is/) og vona að það sé í lagi að ég nota hana, annars bið ég viðkomandi að hafa samband og ég tek hana út eins og skot!

Wednesday 23 January 2008

Vatnið eina!

Það sem ég er hissa á sjálfri mér! Búin að fara í laugina í vikunni og í leikfimi og juuuuuuuminn hvað mér leið vel, sér í lagi í lauginni. Það hefur sko verið lægð yfir landinu hjá mér!
Það er eitthvað töfrandi við sund. Það er svo frelsandi tilfinning að spyrna sér frá bakkanum og finna hvernig líkaminn klýfur vatnið og eiginlegir kraftar kroppsins drífa hann og andann sem í honum býr fram á við og upp á yfirborðið til að draga næsta anda sem sameinast svo andanum fyrrnefnda. Svo pissar maður svo mikið og drekkur vatn á eftir að nýrun hljóta að vera hrein og fín eins og manni líður reyndar öllum, svo ferskur og strokinn allur. Almáttugur, hvað sund er gott! Það er ekki furða að mér líði stundum eins og fiski á þurru landi...
Ps. Ferðaflensa á heimlinu gerir vart við sig, létthituð olífuolía með hvítlauki til áburðar!

Saturday 19 January 2008

Áskorun í Snjóheimum!

Jááááá fínt, já sæll, já fínt, já sæll, já fínt, já sæll, jááááá fínt!

Fékk áskorun um að setja inn myndir af snjónum! Þessar voru reyndar teknar 15. jan. sl og eitthvað hefur nú snjóað meira og er að meðaltali um -10°C og 1m af snjó í mishæðum sköflum!
Það ættu allir Íslendingar að geta tekið gleði sínu að nýju þar sem Íslandströllin unnu leikinn í kvöld og var Fjúzin' okkar nátt'la fremstur meðal jafningja :)

Ég hitti mann í dag sem sagði um kollega sinn 'að hér væri á ferðinni geypilega áhugaverður strákur'! Hann, þessi áhugaverði, hlýtur að vera einstakur, jafnvel snillingur, er það ekki? Og núna langar mig svo að fara út í pælingar á netinu hvað þetta varðar en kann ekki við það! ooooooooo, hvað er mikið vesen að blogga, maður þarf að passa sig hvað maður skrifar og hvað maður skrifar ekki! Þetta er ein af ástæðunum fyrir að ég 'nenni' ekki að blogga! En hressa týpan lifir enn, pávertúdapúpol, eins og þú sagðir, Baba!

Ps. Hanna, ég er búin að komast að því hvað þetta er með flóðhestana; þeir eru náttúrulega í frosti!!!

Thursday 17 January 2008

til hvílu skal halda!

Er þetta rúmm eða rúúm?
Er það furða þótt útlendingum gangi illa að læra tungumálið okkar? Undarlegt, til að mynda, að við notum orðið rúm fyrir bæði 'rúm til að sofa í', 'rúm 8 ár', 'tíma og rúm' svo eitthvað sé nefnt, öll orðin nákvæmlega eins stafsett, ik? jú, stafað eins en hvernig segjum við þau; ýmist rúmm og rúúm, er það ekki?

Wednesday 16 January 2008

Fékk hugljómun í dag, hressa týpan mætt ;o)

Síðustu misseri hafa einkennst af andlegum þyngslum (þrátt fyrir ítrekaðan og einsettan léttvilja) sem er í þann mund að finna sér leið á lendurnar. Mér hefur fundist lífið skrítnara, óútreiknanlegra, ósanngjarnara og eiginlega bara óskiljanlegra en mér hefur fundist hingað til en í dag er ég stóð föst í skafli hér í Snjóheimum skutust niður í kollinn á mér orð hinnar einu og sönnu Klingenberg sem eru eitthvað á þessa leið; 'Það er eins gott að lifa í núinu og hafa gaman af lífinu, það þýðir ekkert að taka því of hátíðlega og alvarlega því maður kemst hvort eð er ekki lifandi frá því!'
Í alvöru, það er málið - í gegnum alla þessu streitu, álag, alvarleik og sorg hef ég glatað barninu í mér. Og ég sem hélt svo trúfast í það og varðveitti; ég gleymdi mér á leiðinni! Nú sé ég galla í hverju horni, glötuð tækifæri, spillingu, græðgi og vanmátt í stað fegurðar og ljóss í ófullkomleikanum, ónýtt tækifæri, velvilja og það að allir eru að gera sitt besta, líka alheimsljósið!

Hnoða, leir' og lita... þið ættuð bar'að vita!