Sunday 15 June 2008

Alparósin

Skilið átt þú allt mitt hrós
sem ást og hlýja vefur.
Þú ert eins og alparós
sem angan ljúfa gefur.

Mig langar að deila með ykkur þessu fallega ljóði sem heldri maður samdi mér til heiðurs fyrir tveimur árum. Þessi maður kemur á heimaslóðir mínar reglulega með ótrúlega göfugum og fallegum hópi.

Saturday 14 June 2008

Jú, það verður að segjast að ég hef ekki staðið mína plikt hvað skrifin varðar, skal viðurkenna það Sigurtjúlli minn. Bið bara að heilsa bróður þínum 'onum Sigurdúlla - vona þið bræður látið sjá ykkur hér á Menningarveislu Sóló (sjá http://www.solheimar.is/) - endilega takið Sigselfi, fóðurbróður ykkar með því hann kann svo vel við sig í sveitinni.
Ég, Sibbý sjálf, fór að sjá nýjustu kvikmynd vinkvennanna í Nýju Jórvík - bara ágætisafþreying með nokkrum góðum samtölum en vegna ótæmdrar gagnrýni (fyrir að ætla að sjá þessa 'ræmu') hef ég hugsað mikið út í það hvers vegna það gefur okkur hina minnstu fróun að horfa á eitthvað sem manni finnst algerlega út í hött og hefur ekkert með raunveruleikann að gera. Það kannski helsta sem kemur til mín fyrir utan það augljósa (þ.e. til að flýja raunveruleikann) er að þetta er kannski bara ýktari mynd af því hvernig við mannfólkið erum í rauninni, frekar en það að við séum alls ekki svona! Það var amk athyglivert að sjá fjölda kvenna flykkjast á myndina í minni og stærri hópum, uppstrílaðar með hvítvínslögg í tánum (kl. 19 nb.) - í nýjum (bleikum) skóm og tilbúnar að hlægja sig máttlausar að vitleysisgangnum í vinkonum okkar. Má vera líka (og sorry strákar, I'm really on your side) að við þurfum bara stundum að fá að vera pínulítið 'silly' og hafa gaman af því að horfa á einhverja yfirborðskennda vitleysu sem endurspeglar samt pínu í lífið á milli kynjanna í sinni ýktustu mynd án þess að verða óendanlega dramatískt eða dapurlegt. Því það verður að viðurkennast að hjá þeim stöllum, er alltaf ljós við enda ganganna, alltaf eitthvað til að hlægja að, trúa á eða vonast eftir og eftir allt; er það ekki það sem við þurfum á að halda pínulítið? eða hvað.....?