Saturday 27 February 2010

Á tónleikum með mömmu :)

Hún sæta mamma mín heitin hefði orðið 57 ára í dag hefði hún lifað. Það eru þrjú ár síðan hún var kölluð á aðrar víddir og ennþá finnst mér það hafa verið í síðustu viku! Þó ég gráti enn yfir óréttlætinu og söknuði eftir henni og þess tíma sem fáum ekki að kynnast og vera saman, þá einbeiti ég mér að því að fagna í hjartanu því að hafa komið á þessa jörð fyrir tilstilli einmitt hennar og pabba og að hún hafi þó fengið þennan tíma til að takast á við þau verkefni sem henni voru ætluð í þessari jarðvist. Ég er þess líka fullviss að hún er hamingjusöm á dýrmætri leiðinni sinni. Hún flíkaði ekki tilfinningum sínum, hún mamma en hún kenndi mér margar dýrmætar lessíur og enn þann dag í dag er ég að uppgötva nýjar lessíur 'a la Oddný' :)

Ég þakka fyrir mömmu mína - í tilefni dagsins ákvað ég að fara á tónleika í kvöld og bjóða henni með mér. Þarna sat ég 'ein' með mömmu og hlustaði á fagra og viðkvæma en þó sterka röddu ungrar söngkonu með risastórt hjarta. Kannski svolítið eins og mamma er í mínu hjarta -

Thursday 25 February 2010

Lengi lifi listin!

Það sem ég er heppin og lukkuleg að vera hér og nú -

Ég skutlaðist í kvöld upp í 'Top studio' til að klára eina mynd sem ég var með í vinnu. Þegar ég var að ganga frá laust niður í mig alveg ótrúlega góðri tilfinningu, riiiiiiiisaþakklæti og hamingjusemi. Það sem ég er heppin og þakklát fyrir að geta verið hér, að skapa og skoða sjálfa mig, félaga mína og þ.a.l. vonandi nokkuð gott þversnið af mannflórunni í gegnum listsköpun. Eftir þessar vikur skil ég ekkert í mér að hafa ekki haldið áfram þarna um árið í listnáminu þótt ég hafi nú alltaf sagt við sjálfa mig að ég hafi einfaldlega ekki viljað vera listamaður og þá þegar vitað að ég vildi gera eitthvað meira í sambandi við heilun og sköpun saman!
Hins vegar hef ég líka verið að velta fyrir mér hvort þetta hafi einfaldlega verið afsökun! Líf listamannsins er ekki auðvelt. Þessi sífellda sjálfsskoðun, sjálfsrýni, rannsóknir og óumflýjanlegur spegill sannleikans tekur á bæði taugar og sál! Ég er hamingjusöm með að hafa kynnst mannspekinni með þetta í huga því samkvæmt henni snýst allt um þróun, þroska, ferðina sjálfa frekar en áfangastaðinn og fyrir vikið er maður frjálsari skapari. En hún snýst líka um aga, að fara í gegnum nálaraugað í stað þess að gefast upp þegar harðna fer í ári og njóta þess er kemur upp á yfirborðið hverri stundu. Auðvitað er alltaf gaman að skapa verk sem snertir, sem maður finnur frið í og samhljóm eða ósamræmi sem hefur áhrif í óvæntir áttir.
Já, ég spyr mig því hvort þetta hafi verið hugleysi, ótti við allt hið óþekkta sem ég hefði getað orðið, vanmat eða leti? Skiptir svo sem ekki máli héðan af nema ef vera skyldi ég geti hvatt einhvern þarna úti til að láta vaða og gefast ekki upp þegar stundirnar verða erfiðar eða leiðinlegar. Vertu frjáls og skapaðu nýtt upphaf á þeirri stundu með áframhaldandi framgöngu en umfram allt njóttu líðandi stundar og þeirrar tilfinningaflóru og dýpt er hún býður upp á -
Lifið heil!

Wednesday 24 February 2010

...og upp úr fötunni stökk froskur!

Í dag var ég að umpotta og laga til plönturnar í skólanum enda ómögulegt að hafa hálfdauðar, þurrar og óhamingjusamar plöntur í kringum sig! Það bara má ekki! Þegar ég svo tók upp fötu fyrir utan til að nota undir ónotaða potta og áhöld, stökk upp til móts við mig heiðgrænn froskur og lenti á skónum mínum. Mér brá svo að ég æpti upp yfir mig og hræddi litla greyið undir bekk! Er reyndar ekki alveg viss um hvort þetta var froskur eða karta en eftir að hafa leitað á netinu eftir upplýsingum sýnist mér þetta hafa verið alvöru froskur! Prinsinn stekkur á mig og ég bara æpi yfir mig og skelli hurðum.... er það furða? ;)

Tuesday 23 February 2010

Hún Ástríður!

Áður en ég hélt til Wales í síðustu kom ég við á Gatwick (enda alveg í leiðinni ;) og hitti ofurkæra vinkonu mína á afmælisdaginn hennar, ásamt nokkrum vinum. Fyrir utan augljósa ánægju og gleði yfir að fá að knúsa vini sína og fagna afmælisdegi þeirra og fyrir utan það að Baba fékk rauðkálið sitt, var ég svo heppin að fá hana Ástríði loks í hendurnar þar sem hún var uppseld þegar ég fór frá landinu skömmu áður! Ég byrjaði svo að horfa á sunnudagskvöldið og er búin að vera að halda aftur af mér að klára ekki allan pakkann í einu :) Mikið ofsalega finnst mér þetta vel heppnaðir og skemmtilegir þættir... fullkomin afþreying fyrir íslensk hjörtu! Nú á ég bara tvo þætti eftir og get varla beðið eftir að horfa á þá á eftir.
Þegar ég er spurð hvað nafnið mitt þýði (ég nota yfirleitt bara Ásta enda Aðalheiður, jafnfallegt og mér finnst það nafn, dálítið stór biti að melta!) segi ég að það þýði 'Luuvvvvv' en hún Erla mín sagði strax 'Passjón' og mér finnst það eiginlega bara skemmtilegra - samanber:
'Nafnið Ásta kemur fyrir í Landnámu en móðir Ólafs helga Haraldssonar hét Ásta' segir á www.snara.is - vefbók og síðar er bætt að hugsanlega sé Ásta stytting á Ástríði. Áfram Ástríður!

Monday 22 February 2010

Af hverju?

Ég velti fyrir mér þessa dagana af hverju? Af hverju að blogga? Upphaflega átti þetta að vera dagbók yfir ferðina miklu í leit að sjálfri mér og mig langaði að deila því með fjölskyldu minni og vinum og til að gera mér betur grein fyrir hvað ég væri að upplifa, með því að vera meðvituð um hvernig ég kem því frá mér.
Þar sem ferðin hefur breyst í dvöl og áframhaldandi þróun á því sem þá þegar var hafið í stað nýrrar og ókunnugraar ferðar og áfangastaðurinn því ei lengur útgangspunkturinn, velti ég því fyrir mér hver tilgangurinn sé!
Það er ýmislegt sem kemur upp í hugann um af hverju og af hverju ekki! Í fyrsta lagi finnst mér gaman að skrifa. Í öðru lagi finnst mér roooosalega gaman að lesa um hvað vinir mínir eru að gera, samanber hann Finnsi mágsi og hún Svava mín sem ég var í heimsókn hjá síðustu daga í Wales (myndirnar eru einmitt úr göngunni okkar um hæðir og engi Rhos með áningu á þessum skemmtilega bekk). Kannski ég sé að vona að fólkinu mínu finnist líka gaman að lesa um hvað ég er að gera! En það miðast þá líklega við að ég deili því sem ég er að gera því það sem mér finnst sjálfri sérstaklega ánægjulegt er að lesa blogg þar sem fólk er hreinskiptið, hugrakkt og fyndið en umfram allt tilbúið til að deila í alvöru! Þar kemur mitt vandamál inn; ég veit ekki hversu tilbúin ég er að deila á netinu mínum innstu hjartans málum. Í annan stað er ég að spá og er í raun óviss um hvað mér þykir í lagi að setja á netið, þá meina ég hvað varðar andlegan þroska og það að setja upplifanir sínar í orð sem ekki verða svo auðveldlega tekin til baka (ef á þyrfti að halda!) en það er kannski það sem mig langar til að deila hvað mest með mínu fólki :)
Kannski er ég bara að flækja málin um of! Kannski ætti ég að hætta að spá og spökulera og bara skrifa... þótt ekki væri nema bara um veðrið! Eða ástina! Eða bara nýju skóna mína :)

Thursday 11 February 2010

Gaman að vakna á morgnana!

Hann sagði mér: 'Á hverjum degi vakna ég og hugsa; djöfull er gaman að vakna, að vera til... frábært að fá að vera til enn einn daginn'

Þetta er svo góð heimspeki, einföld en sönnust af öllum sannleika - takk fyrir að deila þessu með mér og okkur ef þú skyldir lesa þetta :)