Sunday 29 November 2009

Í lífshættu, þó ávallt í swingi ;)

Eftir svaðilfarir dagsins er ég nú komin heim í ró og spekt við kunnugleg sjáöldur alnetsins. Við systur vorum úti á lífinu, eftir notalegt síðdegi í Helsingør með Baldri Frey, þar sem 'Mosta' (ég = morster, ekki monster!) fannst nú sjálfsagt að fara með strákinn í þetta ægilega sæta jólaparísarhjól á jólamarkaðnum (þetta við hliðina á plastskautasvellinu með 'brjótt'ekk'áþérökklanabarn-skautunum til leigu!). Þetta leit nú ekki 'beyzið' út en hlaut að vera í lagi úr því dönskum (og sænskum) barnafjölskyldum er boðið upp á þetta í kuldanum, svona til að hygge sig.
Fyrsti hringurinn var verstur og ég minnt rækilega á það hvernig það er að missa tökin, fá hnút í magann og bíða eftir að komast niður á fast land. NB. Systirin bljúga stóð niðri og glotti enda hefur ábyggilega ekki verið fallegur á mér svipurinn eftir þennan fyrsta snúning! TREYSTA!
Eftir að hafa nánast æpt á krakkann um að hreyfa sig nú ekki mikið til að við yltum nú ekki körfulufsunni í marga hringi, náði ég tökum á ímyndunaraflinu og treysti því bara að við kæmumst aftur í örugga höfn fyrr en síðar. Eftir, að því er ég vonaði, síðasta skiptið fram hjá hliðinu á jarðhæð tók fjár... hjólið að skrölta og hökta og stöðvaði að lokum með okkur litlu greyin nánast á toppnum. Hjartað tók kipp og við sukkum örlítið lengra niður í sætin; 'já, þetta var sko ekki þægilegt, haaaaaa' (allt á innsoginu!). Hrökk þá hjóldruslan í gang og stöðvaðist sem betur fer að lokum með okkar körfu við útganginn og við gátum stokkið út, guðslifandifeginverðégaðsegj'ykkurmaðurlifandi! Sakleysislegur faðir með börnin sín tvö stóð í röðinni eftir að komast í hjólið og leit áhyggjufullum augum á mig eins og til að spyrja; 'ætti ég?' STRÁKAR - ÞAÐ ER EITTHVAÐ HELVÍTIS SLAG ÞARNA UPPI - ÆTTUM VIÐ EKKI AÐ KÍKJA Á'ETTA? thjaaaaa, nahhhh, nei, nei, hvað segiði... - Allt á einhverri útlensku sem ég skyldi ekki betur en þetta en frá þessu augnabliki fengu amk allir endurgreitt og hjólið stöðvað þann daginn! Ótrúlegt hvað getur verið stutt á milli svona stórhættulegrar rúllettu og barnslegrar gleði jólatilhlökkunar, haaaaaaa (allt á innsoginu!)
Ekki var gleðin nú minni í kvöld þegar við skelltum okkur á Swingklúbb en vinkona sys var að syngja í hljómsveit kveldsins. Ekki Swinger (Pibbý þó!) heldur Swing sem reyndist svo vera meira svona Lindyhopp dansklúbbur. Og þarna var bara saman komið fólk af öllum stærðum og gerðum, einstaklingar sem og pör, til að dansa misvel við flotta djass/blús/djævtónlist í nokkurs konar félagsheimilissal án alls glamúrs og gliturs. Fólk var iðulega bara á lágbotna strigaskónum nánast, að dansa og skemmta sér - ekki drekka, ekki veiða, ekki reykja... bara dansa. Eða það er amk það sem maður sá! Frábært - er þetta ekki dásamlega sakleysisleg iðja? Svo heilbrigð og skynsöm! Örlítil bingólykt af þessu en mikið hvað þetta var krúttlegt!
Hey, og svo voru danskort! Og herrarnir máttu ekki segja nei ;)

Tuesday 24 November 2009

'Eplið og ormurinn' - samsæriskenning!

Það er ekki hægt að 'plana' lífið! Sumir reyna það á fullu blasti en það er bara ekki hægt! Það fer alltaf á annan veg en planið segir til um!

Hvernig geturðu vitað hver þú vilt verða ef þú veist ekki hver þú ert?
Hvernig geturðu vitað hvert þú vilt fara ef þú veist ekki hvar þú ert?

Hanna systir 'sendi' mig með litlu stúlkunni sinni á bíó í dag og hún fór með stóra drengnum sínum á hipp og kúl Mækel Djakkzon :) Setningarnar hér að ofan eru um það bil þær sem heyrðust fyrst í myndinni (og jú, ég er farin að skilja nógu mikla dönsku til að skjátlast ekki svo agalega!) Ég hef því sterklega á tilfinningunni að hún Hanna mín hafi verið í samsæri með 'onum Anders og sent mig á myndina 'ekki svo sjella óvart'. Reyndar þegar ég hugsa betur út í það, þá var það litla skvísan sem valdi.... Svona vita börnin nú margt!

Friday 20 November 2009

Ég er ekki gleðikona á Istegade!

Ég er ekki flóttakona, landlaus!
Ég er ekki fangi, limlest eða seld!
Ég er ekki slösuð, sjúk eða dauð!

Ég er of mikið af sjálfri mér
Ég er of lítið af sjálfri mér
Ég er kona með endalausa möguleika!

Ég er full af gleði - en ekki á Istegade!

Wednesday 18 November 2009

Hver hefur sinn djöful að draga!

Öll höfum við okkar djöful að draga, segir máltækið og minn bankar upp á í hvívetna þessa dagana - ég sjálf nefnilega! Efasemdir og ótti, aðþrengd frelsistilfinning og hik taka of mikið pláss og ógna gleðiríkum dagsstundum. Ég efast um hvað ég vil, að ég sé að gera rétt með þessum skrefum sem ég er að taka (sem mér fannst ég eiga, fyrir stuttu, ekki annarra kosta völ en að taka!), efast um sjálfsvirðingu mína, óttast framtíðina og það að vera ein til æviloka, finnst að mér þrengt þar sem ég er háð kerfi og skriffinnsku, tryggingakerfum, þjóðerni, þess að eiga eitthvað og enn frekar því að eiga ekkert og skulda ekkert! Ég hika.... hika við að taka næsta skref af ótta við að það verði ekki það sem mig langar að taka!! Þrátt fyrir allt:
Veit ég að ég má treysta.... treysta og efast ei að næsta skref verður það sem mig langar að taka, það sem ég á að taka og færir mér nær því sem ég vil.
Ég veit að einmitt með því að stíga út úr vítahring streitu og sjálfsfórnar er ég að varðveita sjálfvirðingu mína.
Ég veit ég þarf ekki að óttast að vera ein til æviloka því þótt ég verði það, er það ekki það versta sem hægt er að hugsa sér svo lengi sem ég lifi lífi mínu, samkvæm sjálfri mér og í sátt við Guð og sjálfa mig!
Ég veit að kerfið er búið til af mér (og ykkur) til að við getum virkað í jarðartilvistinni og að mér er ekki þrengt heldur er um mig haldið!
Ég veit að það eitt að eiga ekkert (nema kannski fullt hjarta af ást og kærleika) og skulda ekkert (nema kannski sjálfri mér og umheiminum það að leyfa mér að vera besta útgáfa af sjálfri mér) hefur aldrei verið meira frelsandi en einmitt núna á þessum tímum.
Hik er sama og tap - erum við sjálf ekki bara okkar versti óvinur? Er ekki næsta skref að verða líka besta vinkona mín? Mér hefur nefnilega fundist að fólk sem 'kemur hvað verst' við okkur á stundum, sé einmitt það fólk sem kennir okkur hvað mest og við lærum að elska, fyrir það eitt! Ég læri að elska mig fyrir það eitt að vera minn eigin djöfull að sama skapi og ég er minn eigin engill!

Wednesday 11 November 2009

Leiðrétting!

Samkvæmt skilgreiningum í þessu landi þá er ég atvinnuleitandi en ekki atvinnulaus! Bara til að hafa það á hreinu ;)

Tuesday 10 November 2009

Að vinna eða ekki vinna!

Þetta er í annað skiptið í lífinu sem ég er atvinnulaus og í báðum tilfellum að eigin ósk eða á eigin forsendum. Í fyrra skiptið fékk ég vinnu sama dag og ég sagði upp hinni vinnunni en nú er annað upp á teningnum. Mig langar bara ekkert að vinna - hreinskilningslega!
Ég held ég sé búin að vinna yfir mig síðustu ár. Að sama skapi er ég með bullandi samviskubit yfir að viðurkenna þetta og get því varla notið þess að vera ekki að vinna. Og annað; ég virka greinilega best þegar ég hef þeim mun meira að gera og vinna hefur verið minn drifsteinn síðustu misseri!
Peningar spila alltaf inn í því til að eiga salt í grautinn þarf maður náttúrulega pjening! Til vonar og vara og til að koma í veg fyrir allan misskilning þá má almættið gjarnan vita að auðvitað vil ég hafa vinnu, nægt lifibrauð og heilsu til að hafa ofan í mig og á, vinnu sem ég nýt og get nýtt til að leggja mitt af mörkum í þessum heimi.
Hluti af þessari sérlega opnu aðstöðu sem ég er í einmitt núna er að ég veit ekki hvar mig langar að búa, hvar mig langar að vera, heimurinn er einfaldlega of stór fyrir mig. Í einn stað langar mig að verða einn færasti læknir hér á jörð, bjarga mannslífum hægri/vinstri eða vera óþreytandi listamaður sem færir heiminum hreinasta formið af sjálfum sér og þeirri sjálfleitarbaráttu sem við heyjum öll á hverjum degi. Í annan stað langar mig bara að fá mér jörð, hvar sem það er í raun og veru, bara á meðan ég hef hjartabljúga, djúpa, myndarlega, handlagna prinsinn minn mér við hlið :), stofna mitt eigið litla samfélag, eignast 97 krakka og ala þá alla upp til að verða bestu eintök af þeim sjálfum. Þá langar mig bara til að ferðast, vinna sem sjálfboðaliði, læra tungumál og allt hvaðeina sem hvert land hefur upp á bjóða.
Ég er sem sagt algjörlega týnd í óendanlega opnum möguleikum sem þessi litli heimur hefur upp á að bjóða.
Eini möguleikinn er náttúrulega hinn augljósi eins og stendur sem er þó svo 'erfiður' en það er lifa í núinu, bæta mig sem manneskju, hið innra sem ytra, elska, njóta, upplifa, dýpka og sjá; það sem mér er ætlað og ég á skilið mun banka upp á, í því formi sem það verður á þeim tíma og það verður einungis á mína ábyrgð að vera hugrökk og viljug til að stökkva - þangað til er það á mína ábyrgð að leita og láta vita af mér!
Þannig hljóðar hin heilaga Bárðarkviða *

Sunday 8 November 2009

Sibbý í mömmuleik!

Afmælisgjöf mín til parsins í Rundforbi var að þau færu í helgarleyfi sem ég skipulegði og ég sæi um börn og bú í staðinn. Skipulagning fór aðallega fram á næturna fyrir helgi og þegar við vöknuðum á laugardagsmorgunin var allt meira og minna tilbúið og skötuhjúin lögðu af stað.

Við krakkarnir áttum frábærar stundir og aðrar aðeins minna frábærar en það er svo merkilegt að vera með börnum, fylgjast með sínum eigin tilfinningum eða öllu heldur tilfinningarússi og hvaða áhrif þau hafa á okkur fullorðna fólkið. Þau eru svo saklaus þessi skinn en þó svo klók, svo elskuleg en þó svo stríðin, svo hjartahrein en þó svo baráttuglöð, svo orkumikil en þó svo 'fúl á móti ' á stundum. Þau, eins og mörg þeirra sem búa við sérþarfir, eru aðeins að biðja um það besta í okkur! Og það er einmitt það sem er svo erfitt að muna stundum :)

Thursday 5 November 2009

Löggæslumenn líka fólk!

Sibbý og Bella - Mission accomplished!

Súrt atriði á Orly í gærkvöldi; Taskan mín var tekin til hliðar í 'tékk' - tvær konur í yngri kantinum, mjög vel til hafðar (= rosaskvísur) standa sitt hvorum megin við borðið, önnur horfir stingandi, lítt þó letilegum, augum fram á við og hin lítur ekki af vinkonu sinni, á sama tíma með báðar hendur á töskunni minni. Ég segi 'Bonsoir, c'est mon sac' eða 'gott kvöld, þetta er taskan mín!' Vinkonan með stingandi augnráðið; 'ouah, ouah...' Þögn. Konan með hendurnar enn á töskunni minni; 'en ég meina, voruð þið ekki saman?' Hin; 'nei'. Vinkonan með hendurnar; 'en ég sá ykkur saman' Hin; 'hvar?' Handakonan; 'nú, í bíó'. Augnkonan; 'en við erum ekki saman'. Enn með hendurnar á töskunni minni; 'jah, ég meina... ég veit ekki - jæja, við ætlum að rannsaka þig! ÚPS! Ég; 'ok' - Konan með hendurnar á töskunni minni tekur upp svarta hanska; 'Put..., c'est la merde ici ce soir' (Djöfuls drulla hérna í kvöld!) annað ÚPS! ...eftir rót í minni annars saklausu töskulufsu, þakka ég pent fyrir og óska henni, konugreyinu, góðrar kveldstundar; 'Merci et bonne soirée' = Fokk og enter!

Monday 2 November 2009

.. i dag

Markadur i Melun - heimahadegisverdur - Provins - Falkar og ernir :) - rigningrigning - bio MicMac a Tire-larigot (Jean Pierre Jeunet) - Wiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
...og meira sidar

Lifid er eins og regnbogi; thad tharf baedi sol og regn til ad mynda litina i regnboganum :)

Sunday 1 November 2009

Vive la France!

Á daga mína hefur drifið:

Heimahádegisverður - Melun - 'Frum'skógur - Fontainebleau - Fjölskyldudinner

París - Louvre - Jardin de Tuileries - Place de la Concorde - Champs Elysée - l'Arc de triomphe - Tour Eiffel - Metro - allir litir - öll tungumál - öll trúarbrögð - Indverskur!

París - Sacré Coeur (Messa)- Montmartre (stórskrítir listamenn) - Rue Lepic! - Moulin Rouge - Notre Dames (Messa) - kreppa - Pompidou - les Halles - metro/Gare de Lyon - ennþá fleiri litir - enn fleiri tungumál - enn fleiri trúarafbrigði!

Heimahádegisverður m/alles - Fontainebleau, jardin du chateau - Le Melting Potier - Reagge tónleikar til styrktar börnum í Togo í Nemour

... og meira síðar!