Wednesday 30 January 2008

Bobba bjútí

Jahérna hér - það er ekki af manni skafið; ég sem hélt að kærleikurinn væri nóg og flensan myndi bara fljúga burtu í eigin endurnýjun og skilja mig eftir nýja konu þar sem ég er búin að gera flestallt til að svo megi verða, bæði andlega og líkamlega! En nei, hún bara hangir í mér eins og öngull í rassi! Nú eru komnir fjórir dagir með hálfgerðu óráði og ég er farin að ímynda mér alls kyns vitleysu, hversu langt ég á eftir, hvað gæti gerst ef hitt og þetta etc... forði mér allir heilagir og ég segi nú bara eins og hún Lolla í Brúðgúmanum (með mikilli ákveðni og urri); HÆTTU'ÐESSU!

'Bjútíið' í veikindum sem þessum er að maður fær svo góðar kveðjur og þessi mynd fylgdi einni þeirra í dag. Ég er allt önnur nú þegar, bara hitinn rokinn og ég er mas búin að ryksuga kotið!

Það er svo margt sem flýgur gegnum hugann þegar maður liggur heima, ýmist með óráði eða óþreyju yfir að geta ekki unnið hörðum höndum að hugðarefnunum og sinnt vinnunni. Dramatíkin smeygir sér inn aftan til og ég skil bara vel fólk sem hræðist það að finnast látið eða slasað e-s staðar eftir að liggja í nokkra daga - aaaaaaaleitt! Hvað það er nauðsynlegt að eiga góða að og að vera áttur að ... forð'okkur allir heilagir!

Jæja, Bobba bjútí segir sælsæl í bili <:><

ps. hvað segja ekki veðurguðirnir? Áfram stormur, tjah, jah, nú er ég hissa!


Saturday 26 January 2008

Kærleiksflensan!

Ófærðin virðist ætla að hertaka kroppinn líka því kuldahrollur, sviti og önnur ólíðan (aka endurnýjun!) gerir vart við sig í dag! Það er því tilvalinn dagur til að hugsa! Og vera! Og drekka te! Og endurnýjast! Hressa týpan aðeins í lagningu!

Ég fór í jarðarför í gær með félögum mínum héðan til fylgdar ungri konu sem var að vinna með okkur. Hún háði ótrúlega baráttu við þetta erfiða, margslungna og að því er virðist duttlungafulla krabbabein sem mamma lét í minni pokann fyrir. Hún hélt úti heimasíðu með hugleiðingum um lífið og tilveruna, bæði um 'krabbann' eins og hún kallar hann en svo bara um lífið sitt almennt! Það er ótrúlega dýrmætt að lesa bloggið hennar og sjá hvað hún var opin með þetta og tilfinningar sínar og líðan.
Þetta fær mann auðvitað til að hugsa um lífið og hvað það er ótrúlega dýrmætt að eiga að félaga (í flt) í þessum heimi og vera hreinn og beinn! Enn fremur hvað það er sorglegt að við skulum eyða orku og ooooooooofurdýrmætum tíma í að vera ósátt, taka þátt í, í raun óheiðarlegum, samskiptaleikjum, keppa án umburðarlyndis og bara almennt að trúa því að fólk sé slæmt og að við séum hverju öðru betra! Auðvitað eru allir 'betri' í einu eða öðru en næsta lifandi vera en allir eru þá líka 'verri' í einhverju (af því að næsta manneskja er 'betri'), ef við viljum horfa á þetta með raunmannlegum augum nútímans! Við erum öll fædd á þessa jörð af einhverjum ástæðum, ekki bara í litla þorpinu eða stórborginni sem 'hefur ekkert að gera með jörðina að gera' (sem er náttúrulega helber vitleysa!) heldur af því að við erum sameiginlega hluti af stóru verki! Stóru verki sem á sér stað í undurfagurri og nærandi veröld með mismunandi hindrunum sem við getum 'unnið' á! Haldiði virkilega að Yfirvaldið hafi sett okkur hér saman til að bara hlægja að okkur þegar okkur mistekst?! Það skapaði okkur og við sköpum okkar líf með þess aðstoð! og hvers annars!KÆRLEIKSAUGUN NÆRA OKKUR MEST OG BEST OG GERA OKKUR KLEYFT AÐ KLÍFA JAFNVEL STÆRSTU FJÖLL HIMINGEIMANNA ALLRA! STÆRRI EN OKKUR GRUNAR OG MUN GRUNA!

ps. ég fann þessa mynd á vef Kærleikssetursins (http://www.kaerleikssetrid.is/) og vona að það sé í lagi að ég nota hana, annars bið ég viðkomandi að hafa samband og ég tek hana út eins og skot!

Wednesday 23 January 2008

Vatnið eina!

Það sem ég er hissa á sjálfri mér! Búin að fara í laugina í vikunni og í leikfimi og juuuuuuuminn hvað mér leið vel, sér í lagi í lauginni. Það hefur sko verið lægð yfir landinu hjá mér!
Það er eitthvað töfrandi við sund. Það er svo frelsandi tilfinning að spyrna sér frá bakkanum og finna hvernig líkaminn klýfur vatnið og eiginlegir kraftar kroppsins drífa hann og andann sem í honum býr fram á við og upp á yfirborðið til að draga næsta anda sem sameinast svo andanum fyrrnefnda. Svo pissar maður svo mikið og drekkur vatn á eftir að nýrun hljóta að vera hrein og fín eins og manni líður reyndar öllum, svo ferskur og strokinn allur. Almáttugur, hvað sund er gott! Það er ekki furða að mér líði stundum eins og fiski á þurru landi...
Ps. Ferðaflensa á heimlinu gerir vart við sig, létthituð olífuolía með hvítlauki til áburðar!

Saturday 19 January 2008

Áskorun í Snjóheimum!

Jááááá fínt, já sæll, já fínt, já sæll, já fínt, já sæll, jááááá fínt!

Fékk áskorun um að setja inn myndir af snjónum! Þessar voru reyndar teknar 15. jan. sl og eitthvað hefur nú snjóað meira og er að meðaltali um -10°C og 1m af snjó í mishæðum sköflum!
Það ættu allir Íslendingar að geta tekið gleði sínu að nýju þar sem Íslandströllin unnu leikinn í kvöld og var Fjúzin' okkar nátt'la fremstur meðal jafningja :)

Ég hitti mann í dag sem sagði um kollega sinn 'að hér væri á ferðinni geypilega áhugaverður strákur'! Hann, þessi áhugaverði, hlýtur að vera einstakur, jafnvel snillingur, er það ekki? Og núna langar mig svo að fara út í pælingar á netinu hvað þetta varðar en kann ekki við það! ooooooooo, hvað er mikið vesen að blogga, maður þarf að passa sig hvað maður skrifar og hvað maður skrifar ekki! Þetta er ein af ástæðunum fyrir að ég 'nenni' ekki að blogga! En hressa týpan lifir enn, pávertúdapúpol, eins og þú sagðir, Baba!

Ps. Hanna, ég er búin að komast að því hvað þetta er með flóðhestana; þeir eru náttúrulega í frosti!!!

Thursday 17 January 2008

til hvílu skal halda!

Er þetta rúmm eða rúúm?
Er það furða þótt útlendingum gangi illa að læra tungumálið okkar? Undarlegt, til að mynda, að við notum orðið rúm fyrir bæði 'rúm til að sofa í', 'rúm 8 ár', 'tíma og rúm' svo eitthvað sé nefnt, öll orðin nákvæmlega eins stafsett, ik? jú, stafað eins en hvernig segjum við þau; ýmist rúmm og rúúm, er það ekki?

Wednesday 16 January 2008

Fékk hugljómun í dag, hressa týpan mætt ;o)

Síðustu misseri hafa einkennst af andlegum þyngslum (þrátt fyrir ítrekaðan og einsettan léttvilja) sem er í þann mund að finna sér leið á lendurnar. Mér hefur fundist lífið skrítnara, óútreiknanlegra, ósanngjarnara og eiginlega bara óskiljanlegra en mér hefur fundist hingað til en í dag er ég stóð föst í skafli hér í Snjóheimum skutust niður í kollinn á mér orð hinnar einu og sönnu Klingenberg sem eru eitthvað á þessa leið; 'Það er eins gott að lifa í núinu og hafa gaman af lífinu, það þýðir ekkert að taka því of hátíðlega og alvarlega því maður kemst hvort eð er ekki lifandi frá því!'
Í alvöru, það er málið - í gegnum alla þessu streitu, álag, alvarleik og sorg hef ég glatað barninu í mér. Og ég sem hélt svo trúfast í það og varðveitti; ég gleymdi mér á leiðinni! Nú sé ég galla í hverju horni, glötuð tækifæri, spillingu, græðgi og vanmátt í stað fegurðar og ljóss í ófullkomleikanum, ónýtt tækifæri, velvilja og það að allir eru að gera sitt besta, líka alheimsljósið!

Hnoða, leir' og lita... þið ættuð bar'að vita!