Wednesday 21 October 2009

ESSASÚ!



Litlu, sætu auglýsingarnar frá vissu símafyrirtæki á klakanum hafa vakið mikla lukku á heimilinu og hér er einmitt afrakstur þess :) ps. Afró er líka í tísku (svona til að fá permó næsta dag ;)

Kontórinn fundinn!


Þessi snilldarhugmynd kom upp um daginn; ég ætla bara að leigja mér kontór og láta tækifærin koma til mín... Þá fara hlutirnir að gerast, sjáiði; Sibbý í endalausum sérverkefnum ;)

Anyways - kontórinn er fundinn! Niðri við Nýhöfn, endilega kíkið við, kaffi á könnunni :) og í Guðs bænum, hafið verkefnið klárt við höndina -

Sibbý's kontór - open at all times for people with projects :)

Dagur í Kóngsins Köben...

Dagurinn í dag hjálpaði mér mikið til að líða eins og ég sé að 'gera eitthvað' - og þá meina ég annað en að njóta samvista við elskulegu litlu familíuna í Rundforbi.
Eftir íkveikju blóðrásar, morgunmat og örlítið tutl í morgun keyrði ég niður á Skodsborg stasjón, lagði Nissanum snyrtilega við stöðina (bakkaði í stæði, náttúrulega!) og tók svokallaðan 'kystbanen' niður á Østerport. Þaðan gekk ég (í vitlausa átt, auðvitað, svona til að læra meira!) að húsi Jóns Sigurðssonar sjálfs eða Øster Voldgade nr. 12 (http://www.jonshus.dk/). Mikið sem var skemmtilegt að koma þangað og fróðlegt. Ég hitti reyndar ekki hræðu, heyrði umgang í húsinu en gat með engu móti séð nokkra lifandi sálu sem kom þó ekki að sök því sýningin um Jón 'þrykk' og konu hans Ingibjörgu 'þrusu' Einarsdóttur var mjög áhugaverð. Maður fær svo góða tilfinningu fyrir hvernig lífi þau hafa lifað, amk í Köben og einhvern veginn ímyndað sér stemmninguna hjá Íslendingunum í Köben á þessum tíma. Komst líka að því að hún Ingibjörg var 7 eða jafnvel 8 árum eldri en Jón þannig að ég þarf nú ekki að hafa áhyggjur enn!!!
Jæja... hélt nú leiðin áfram í gegnum Kóngsins garð eða Kongens have og niður á Gothersgade þar sem innan tíðar ég gekk í 'flasið' á Studieskolen (http://www.studieskolen.dk/) þar sem ég hafði hugsað mér að læra meiri dönsku. Á sum sé stefnumót þar síðar í próf til að vita á hvaða stigi danskan mín er! Ég gekk um Nyhavn og Strikið og naut veðurblíðunnar en þó það sé orðið kalt hérna þá er sólin enn dugleg að skína. Sá alveg rosafallega ljósmyndasýningu á Nýjatorgi Sjóla sem er sett upp í tengslum við 'Klima-fundinn' sem verður hér í Köben í desember (http://en.cop15.dk/). Á sýningunni má finna stækkaðar ljósmyndir af 100 stöðum í heimi sem eru í hættu vegna hlýnunar jarðar, annað hvort útrýmingahættu eða þar sem fólk er í hættu, matvælaframleiðsla, byggingar, atvinnuleiðir etc..! Myndirnar eru ótrúlega fallegar en jafnframt sláandi sem og upplýsingarnar og góðu ráðin til bættrar umhverfisvitundar sem fylgja! Og hugsið ykkur; á sumum stöðum í heiminum er fólk ekkert að hugsa um hvort það eigi að byrja í þessu 'gymi' eða hinu, hvaða bíl eigi að kaupa næst (og hvað þá hvernig á að borga af honum!) eða hvað það ætli að verða þegar það er orðið stórt? Það einungis vaknar upp og heldur af stað til að leita vatns og matar, nánast liðlangan daginn! Pælið í því hvað við höfum það gott - Og þarna gekk ég um í fínu leðurskónum mínum með Fair-trade kaffið mitt í 'take-away' bollanum (sem fór svo í ruslið) með stafrænu myndavélina mína til að SKOÐA hvað ég hef það gott! Að hugsa með sér!

Friday 16 October 2009

...úr dagbók!

DAGUR 1 - 1. Okt. '09
...dagur að kveldi kominn um borð í Norrænu þann 1. okt. 2009. Nýr kafli er hafinn í mínu lífi, ég hef sagt skilið við kafla í fortíðinni og sigli inn í nýja strauma um þessar mundir. Ég sit hér og vagga og hlakka til að sofa í aðra 11-12 tíma, ein í klefa (sem betur fer) en án glugga (sem er bara nettur fórnarkostnaður þess að vera ein!).
Dagurinn í dag í Torshavn var frábær, hlýrri en á horfðist. Torshavn er fallegur bær með fersklegu yfirbragði, fallegum húsum og almennilegu fólki, einmitt svolítið eins og Hafnarfjörður eða Akureyri, hæðóttur bær með gömlum húsum. Færeyjar sjálfar virðast fallegt land.
Fyrst fannst mér eins og ég gæti alveg búið í Torshavn, sérstaklega þegar ég þræddi rómantísku þröngu göturnar á Tinganesi og sá öll Ástulegu húsin með krúttlegu hurðunum. Ég hefði EKKERT á móti því að búa í einu slíku.
Ég þræddi Tórshavn frá höfn til Kulturhússins með viðkomu á listasafninu. Keypti mér Dimmalætting og fleiri blöð, Litla prinsinn á færeysku og tók svo loks strætó um bæinn áður en ég fékk mér að borða niðr'í bæ og gekk um Skansin fyrir brottför. Lét Skipperinn vera, lagði ekki í eina marineraða sjóhetju frá Vestmanna ;)
Sem dregur mig að næsta 'efni' sem satt best stingur mitt litla fordómahjarta;
Marinering virðist í hávegum höfð! Á dallinum ganga margir (virðist vera allflestir!!!) um með pela eða bokku í hönd hvenær sólarhringsins sem er, eins og væri talnaband! Í dag mátti finna áfengislykt í lofti á flestum veitinga- og kaffistöðum bæjarins. Ekki það að ég hafi farið inn á marga en ég fór amk út af örfáum af þessum sökum! Veit ekki hvort ég er ofurviðkvæm fyrir þessu núna eða hvort þetta er bara hið eðlilegasta mál þar syðra! Læt vera að spekúlera meira í því... Þegar allt kom til alls var í raun nóg í bili að fá smjörþefinn af annars fegurðinni, ferskleikanum og hins vegar þessari marineringu, ég var spennt að komast um borð aftur og halda áfram ferðinni....

Dagur 2 - 02. okt. þar sem ég sit á 5. dekki við receptionið. Búin að sitja úti á 8. dekki (þar sem ég bý!) að lesa í dýrindisveðri, fleygið haggast vart!
7 skip í sjónmáli í dag og 2 olíuborpallar - skrítið að einhver skuli 'velja' sér að vinna úti á ballarhafi og að vera 'hvergi' í lengri tíma. Það er eins gott að félagsskapurinn sé mikils virði og í lagi á þeim stundum. Maður er manns gaman er sagt og það á sko örugglega við á vinnustöðum sem þessum! Þar hljóta að myndast tilfinningabönd og samskipti sem eru engu lík og byggja á trausti fyrst og fremst. Ég ætlaði t.d. að vera rosalega dugleg að skrifa hér um borð en ég fann sér í lagi fyrsta sólarhringinn að ég var ekki róleg, fannst ég hálfóröugg. Á þessu járnfleygi byggjum við líf okkar og traust í nokkra sólarhringa, ég og um 700 aðrir einstaklingar og þótt ég sé ekki að mynda nein sérstök tengsl þannig nema að kynnast lítillega örfáum hræðum, þá treystum við fullkomlega að okkur verði siglt heilum og höldnum í land af fagfólki og góðum græjum!

Mig langar að finna nafn á ferðina mína, ævintýraárið. Hún tengdist strax mánanum, einhvern veginn og ég tengi það þannig hinu kvenlega og innri leit að sjálfri mér... Nema núna, finnst mér þetta næstum ekki vera nein afmörkuð ferð, meira eins og bara nýtt upphaf á því sem koma skal....

Thursday 15 October 2009




Þessi sýn blasti við mér á bílnum mínum að kveldi dags 7. okt. eða 3 dögum eftir komuna til Danmerkur... á hvað minnir þetta?

Hoppandi glaðar!

Skemmtilegur dagur við Suðurströndina, einn dag í ágúst :)Posted by Picasa

Ferðin hafin!

Ferðin í leit að sjálfri mér er hafin! Ég veit ekki hvort ég verð 3 vikur eða 30 ár en ég ætla að hugsa bara eitt ár fram á við - leitin er amk hafin! Já, ég ætla að verða og vera ein af þessum einstaklingum (lesist 'kerlingum') sem segja hversdagslífi sínu og halda á vit ævintýranna í von um 'nýtt' líf og ferskara, gleði, uppfyllta drauma og óvænt ástarævintýri, heilbrigði og dýpt, fund sjálfsins og sköpunarkraftsins við raunvitund í núinu - allt á einu bretti, takk!

Stórkostleg kona gaf mér bók áður en ég fór - frábæra bók enn sem komið er en það hálfpartinn truflar mig að lesa hana þegar ég er í þeirri stöðu sem ég er núna, þ.e. heimurinn opinn og óráðinn, hver dagur látinn nægja sinni þjáningu og áningu og einhvers konar sjálfsskoðun í gangi! Bókin heitir 'borða, biðja, elska' og mér líður eins og ég gæti næstum hafa skrifað hana sjálf! Hún greip mig undir eins en á sama tíma hugsaði ég; 'æ, ætli hún taki frá upplifun minni á þessu ári? eða mun ég litast af upplifun þessarar konu á hennar ferðalögum og sjálfsleit?´ Tók svo bara þá ákvörðun að lesa hana og hafa mér jafnvel til hliðsjónar! Kannski 'bendir' hún mér á eitthvað sem ég hefði annars ekki tekið eftir eða veitir athygli að einhverju sem ég hefði annars misst af! Eða líka; hún kann að benda mér á eitthvað sem ég vil gera á þessu ári eða vil ekki gera... Í öllu falli; bókin kætir mig og veitir mér innblástur. Og manni veitir nú ekki af kæti og innblæstri á þessum stundum þegar óvissan, efinn og raunsæið ræður annars ríkjum!!!

Leitin heldur áfram...