Sunday 28 March 2010

Æsland..

...hír æ komm :)

Breytingar, dauði, nýtt líf - endurnýjun!

Breytingar og sveigjanleikapraktík er eitthvað sem hefur verið ansi stór þáttur í mínu lífi undanfarna mánuði og jafnvel ár! Enn á ný er ég að breyta... pakkaði saman öllu mínu hafurtaski og setti í geymslu enda flyt ég í annað hús litlu frá því gamla þegar ég kem út á ný eftir frí. Ég er svo hamingjusöm í skólanum og í Englandi að mér finnst hálfgerð synd að vera að taka frí svona rétt nýbyrjuð!
Það eru miklar hræringar í mannspekiheimunum í Bretlandi (sem og líklega annars staðar) með annað hvort lokunum eða miklum breytingum á rekstri stofnana og skóla. Síðastliðinn laugardag var lokahátíð n.k. haldin við Emerson College í Forest Row. Skólanum, í þeirri mynd er ég og fjölmargir aðrir Íslendingar þekkja hann, hefur verið lokað og nú er að sjá hvað kemur upp úr öskunni. Um leið og fólk tengt skólanum (þ.á.m. ég sjálf) er vongott og bjartsýnt um framhaldið eru uppi miklar og stórar spurningar og áhyggjur um framhaldið. Stundum er nauðsynlegt fyrir gamlar, fúnar og þungar byrðar að leysast upp og endurnýjast til að nýtt og ferskt brum sjái ljósið. Það er hins vegar spurning um hver og hvernig er unnið úr byrðunum - við því er beðið svara!
Athöfnin á laugardaginn var falleg, einlæg og einföld - tár trega en jafnframt þakklætis láku niður marga kinnina en það var greinilegt og skýrt að Emerson College hefur snert marga strengi sem svo liggja um víða veröld. Fjölmargir er tóku til máls höfðu í hávegum orðin sem ég nota oft til að útskýra hvernig mér leið þegar ég kom á Emerson; 'It was like finally coming home'. Tíminn á Emerson var mér afar dýrmætur og hefur í raun markað mjög hvaða leið ég hef valið að feta þaðan (og jafnvel þangað!) - ég þakka fyrir mig og sendi hlýju og ást í garð skólans sem án efa hefur ræktað upp margan góðan heimsstrenginn!
Eins og svo oft áður er nú lagt að veði; Traust og jákvæðni, vilji til að skapa og rækta. Verði þinn vilji!

Monday 15 March 2010

Björk, Beta og Vivianne... á sama vegg!

Er ekki dásamlegt að sjá þær saman, þessar mögnuðu konur? Þarna er hún Björk okkar (smáborgarinn ég fylltist stolti yfir rótum mínum!) á NPG við hliðina á henni Betu. Hún er svo falleg, hún Björk sko (þótt Beta eigi sínar hliðar og svo er það Vivianne, náttúrulega)
Áfram Ísland!
Here they are together.... our beautiful Björk and 'your' beautiful Beta (that's what we call her in Icelandic) and of course.... Vivianne! Go Iceland!

... nema kannski -

... að dagurinn í dag var alveg frábær í skólanum. Fjarnemarnir (sem ég byrjaði að læra með) eru hérna núna þannig að það er heldur betur líf í kotinu :) Þau voru með kynningar í dag fyrir okkur fulltíðanemendurna sem við gáfum þeim svörun og viðbrögð við. Dagurinn endaði með 'alvöru' case study sem varð til þess að ég uppgötvaði raunveruleika þess er ég er að nema... Ég er að læra fag sem er algjörlega í samræmi við það sem ég trúi á og hvernig ég vil skoða heiminn og nálgast hann - þarna vorum við að vinna með alvöru verkfæri sem virkuðu og virka! Ég hlakka svo til að vakna í fyrramálið og halda áfram :)
ps. svo var líka óvænt kökuboð í kaffinu með blómum og tilheyrandi í tilefni af afmælinu mínu :)

Takk fyrir mig, London :)

Dagur að kveldi komin eftir viðburðaríka afmælishelgi í London. Ég tók föstudaginn rólega, átti heimamorgun (sem ég elska) og fór með lestinni inn til London eftir hádegi. Það var svo fallegt veður að ég fór út úr túpunni aðeins fyrr en áætlað og gekk í gegnum Kensington High street (og fann mér þar dömustígvél sem ég hef verið að leita að lengi) - svo í gegnum Holland Park sem er alveg dásamlegur garður, hrár og og 'umhverfisvænn' svona í miðri höfuðborginni. Þegar í hús Fjólunnar var komið angaði þar loftið af karabískum kryddtegundum, hlátrasköllum, opnum örmum og herlegheitum sem endaði með dinner og partýi um kvöldið með alls kyns áður ókunnu fólki, sem var skemmtileg tilbreyting. Eftir að hafa náð áttum á laugardagsmorguninn drifum við okkur út í bæjarferð með óvæntum afmælissnúningi a la fairy godmother, göngu og að lokum í bíó þar sem við sáum eina góða stelpumynd, rom-com eða chick flick.... hvað sem þið viljið kalla það - stutt í grátur og hlátur :) Sunnudagurinn heilsaði með sól í heiði og menningarferð í miðborgina þar sem ég heimsótti 'The National Portrait Gallery' á milli þess að flækjast á milli grænna hatta, trefla, Guinness bjórdósa og ælandi ungmenna en Írar voru að fagna degi hins heilaga Patricks á Trafalgar Square (Guð, nú verður mér hugsað til 'Stelpnanna' - muniði eftir stórborgurunum, hjónunum tveimur? ;) ;) ;) Hitti eina vinkona í 'Lönzj' og aðra í kaffi - getur bara varla verið betra, svei mér þá!

Friday 12 March 2010

Vá, vá og vá.... allt í gangi... London bíður í ofvæni og ég fer í fríið!
Mússí til ykkar allra
Á

Thursday 4 March 2010

Ástin og samveran er mér hugleikin þessa dagana og sér í lagi þar sem ég er aðallega ein og ástlaus þessi misserin. Ekki það að ég eigi ekki fullt af vinum sem elska mig jafnmikið og ég elska þau en ég meina svona karl-kona-ástlaus. Flestum stundum er ég sátt við að vera minn eigin félagsskapur og ég er orðin nokkuð vön því að sofna ein, vakna ein, borða ein, fara ein á kaffihús, ein í bíó, ein í ferðalag, hlægja ein að brandara í útvarpinu eða fara ein á tónleika. Svo koma þessir dagar þar sem ég er bara hreint út sagt komin með ógeð á að vera ein! Á þessum stundum finnst mér næstum óhugsandi að ég eigi nokkurn tímann eftir að kynnast einhverjum og kyssa á ný! Þá virðist síst auðvelt að finna hreina, fallega og óspillta ást sem ekki kemur með óyfirstíganlegri fortíð, fordómum í garð straumlínulagaðra kvenna eða hreinlega áhuga á annari ást! Juh, hvað ég er mikil kjeddling að skrifa þetta en svona líður mér sem sagt á dögunum þeim, er ég örvænti yfir því að það verði bara einn tannbursti í bollanum það sem eftir er!

...næsta dag
Þessa málsgrein hér fyrir ofan skrifaði ég í gær og ákvað að láta hana liggja í bleyti yfir nóttina! Ef ég birti hana ekki er það til að breiða yfir hvernig mér leið í gær af því mér finnst glatað að líða svona klisjulega! En ég birti hana af því að það er hluti af mér að líða eins og mér leið í gær! Ef það er glatað er það bara gott - það kom samt nýr dagur og mér líður ekki eins í dag. Ég er alveg viss um að í heiminum bíður mín prins sem getur ekki beðið eftir að hitta mig :)

Ég er barmafull af ást gagnvart umheiminum og umheimurinn gagnvart mér, ég þarf bara að taka á móti opnum örmum og gleðjast - hvar sem það verður, hvenær eða hvernig! Það eitt veit ástargyðjan sjálf, heill sé henni!

Wednesday 3 March 2010

Ástin mín

Trúi á þig, bíð
Leita að þér, bíð
Hafna þér, bíð
Sendi eftir þér, bíð
Fagna þér, bíð
Reyni þig, bíð
Tala við þig, bíð
Sendi þig út, bíð
Treysti þér, bíð
Dreymir um þig, bíð
Hylli þig, bíð
Lifi þig, er

Komdu mér á óvart - elskaðu

Ást

Hvar er hún, ástin mín?
Hvar er hann, folinn minn?

Ást í hugarfylgsnum
án formála
Ást í leynum
án skilmála
Ást í skilum
að eilífu, fokk og enter!

Komdu, ástin mín - óttast'eigi, vertu memm