Sunday 31 January 2010

Vetrarhrím (Bara svo þið haldið ekki ég sé stungin af!)

Það er svo langt síðan ég skrifaði síðast að ég veit varla hvar ég á að byrja!
Síðastu vikur hafa einkennst af fallegu vetrarhrími, bæði úti og inni með fylgjandi hrími í fingrum mínum enda margt að melta. Skrítin en áhugaverð byrjun á ári - satt best að segja líður mér eins og það séu 5 mánuðir búnir af árinu en ekki 1! Ég er bæði búin að ferðast til Danmerkur og Íslands með tilheyrandi svefnleysi og tilfinningafári (ótrúleg gleði, söknuður, vonbrigði, ást og streita - allt í sama pakkanum)! Einnig fór ég í jarðarför hér (tengt skólanum) og tilheyrandi upplifanir og tal fylgdu í kjölfarið; um dauðann, missi, lífið, tilganginn, ástina og fleira.
Það er mikið að gera í skólanum og mikið af aukakúrsum í boði sem ég hef verið dugleg að sækja. Heimavinnan er ekki af verri endanum né af skornum skammti :) Leirinn var hnoðaður óspart í þessari viku til að klára 4 verk sem ég var með í gangi og svo eru önnur verk sem bíða í mismunandi miðlum (aðallega málningu þó!) Dagbókarskrif og dagbókargerð í sínum víðasta skilningi eru stór þáttur í náminu sem er meira eins og portfolio-gerð og í raun bíógrafía yfir námið í sjálfu sér og allt sem maður fer í gegnum!
Ég er svo hamingjusöm og heppin að vera hér. Mér líður heima.

Thursday 21 January 2010

Upp af værum draumi

Við komuna á Kastrup í gær, fannst mér ég bara vera að vakna upp af ljúfum draumi. Það er eins og ég hafi aldrei farið frá Danmörku - eða amk eins og það hafi bara verið í gær. Gleymdi reyndar að færa dönskuskúffuna ofar í hilluna áður en ég lagði af stað en rankaði við mér á vellinum þegar ég heyrði allt í einu danska seli tjá sig og gantast. Það var svo í alvöru eins og ég væri með kartöflu í hálsinum yfir dagin þótt það kjaftaði á mér hver dönskutuska þegar ég hitti krakkana á leikskólanum eða jafnvel eins og ég væri frá Indlandi, með hálsmyndaða -oa-hreiminn alveg á hreinu ;)
Eins og ég er búin að vera í skýjunum yfir skólanum síðustu daga og því að vera komin nákvæmlega á þann stað sem ég á að vera að gera það sem ég á að vera að gera, sem nærir mig svo og hrærir, já - þá var svoooo gott að koma hingað 'heim' og knúsa litlu fjölskylduna mína. Eftir ljúft morgunknuðl var 5 manna morgunverður kærkomin byrjun á fallegum og mjallhvítum degi :)

Monday 18 January 2010

Today's story

Skólinn hófst í dag - ég er í 7. himni.
Dagurinn byrjaði á 'Therapeutic use of story' þar sem við skoðuðum hugtakið 'saga' í allri sinni dýrð. Hvað er saga? hver er tilgangur sögu? hver er sögumaður? hver er hlustandi? hver eru mörkin á milli sögumanns-sögu-hlustanda? Hver er okkar saga? hver er saga meðferðarleitanda? Heimspekilegar pælingar með útgangspunkti frá meðferð eða þerapíu - alveg dásamlegt að byrja á þessu viðfangsefni. Í feimni minni hef ég nefnilega alltaf verið skíthrædd við að segja frá, segja sögu, hvort sem það er í orðum eða öðrum formum, hvort sem það er mín saga eða aðrar sem ég hef lært og þ.a.l. verið hrædd um að gleyma eða rugla! Að sama skapi er ég svo heilluð af þessu formi, þ.e 'sagnalistinni' sem slíkri, hvort sem það á við rímurnar okkar gömlu, persónulegar sögur hvers og eins eða sögur frá svörtustu Afríku sem sagðar eru í kringum eld með tilþrifum. Seinnipartinn skoðuðum við málverk eftir vissum kenningum og gerðum æfingar sem þjálfa vitund, meðvitund og skynjun.
Í kvöld fór ég svo á fyrirlestur um mannspeki og næringu á Emerson, þar sem ég lærði undirstöður mannspekinnar fyrir allmörgum árum.
Hópurinn í skólanum er góður, við erum 10, þ.a. 2 karlmenn sem gerist nú ekki á hverju ári! Það er gott að fá smá mótvægi við allri mýktinni þótt við konurnar séum góðar út af fyrir okkur. Og svo var sjarmerandi kennarinn líka karlkyns þannig að dagurinn var í alla staði í jafnvægi :)
Jah, þvílíkur léttir að stíga í gegnum flóðmúrinn og anda inn í silkimjúkt lærdómsflæðið -

Thursday 14 January 2010

Íhuga - frjósa - flæða

Lukkan yfir mér þarna á miðvikudaginn að fara ekki í afleiðaferð í Ikea (mikil hætta á eyðslu sem ekki má!). Ég hitti vin minn óvænt í kaffilögg og út úr því kom svo partýboð í tilefni gamlársdags í Serbíu, hjá serbesknum vini vinar míns. Þar var sem sagt komið saman gott fólk af ýmsum þjóðarbrotum; Íslandi, Serbíu, Englandi, Grikklandi, Hollandi og Dóminíska lýðveldinu! Allt fór vel fram og fallega og gott að finna félagslegt netið myndast og stækka hægt og bítandi. Þótt ég kvarti yfir að vera ein á stundum, verð ég að viðurkenna að það er líka þægilegt, engar væntingar, engar ögranir! Nú hverfur frost úr jörðu og sjálf er ég að brjótast hægt og bítandi út úr hermísku félagsmynstri, ögra sjálfinu með því að kynnast nýju fólki. Það er áhugavert að kynnast fólki og komast nær kjarna hvers og eins, framhjá eða í gegnum fyrstukynnaupplýsingaöflunina og einnig að leyfa fólki að komast að kjarna þínum (mínum!). Þá finn ég flóðin nálgast, eins og gjarnan gerist eftir miklar úrkomur. Ég hlakka rooooooooosalega til að byrja í skólanum og leyfa öllu því sem er að brjótast um í ástríðufulla en viðkvæma hjartatetrinu mínu að koma upp á yfirborðið og flæða fram í eiginlegu formi og efnislegri umbreytingu.

Sunday 10 January 2010

Hann Lúlli minn!

... enn og aftur þarf ég að leita að heimili fyrir hann Lúlla minn - hann hefur verið í fóstri hjá góðri vinkonu sem getur ekki haft hann lengur! HANN ER YNDI :)
Hver og hver og vill?

Enn hefur Þór tökin!

... ég vanda mig á hverjum degi við að taka hversdagsleikanum eins og hann er og lifa algjörlega í núinu! Ég get þó ekki annað en viðurkennt að ég er pínu pirruð yfir hvað veðrið stjórnar miklu hér og hefur mikil fyrirfram áhrif, að mér finnst! Ég hlakka svo til að byrja í skólanum og komast í rútínu, að það er hálffúlt að skólanum sé frestað á morgun vegna yfirvofandi snjókomu! Ég fór t.d. í 1,5 klst göngu í dag og var 2 klst úti að moka í kringum húsið okkar í dag... Ekkert að veðri, ekki einu sinni kalt! Jú, það er ennþá mikill snjór en ekki nægur til að fresta daglega lífinu, finnst mér! Væri ekki líka skynsamlegra að gera ráð fyrir að lífið haldi áfram og fresta þá bara að morgni hins eiginlega dags, ef ástæða er til?!


Það er líka áhugavert að hlusta á útvarpið - reyndar ágætt að ég heyri miklu meira talað um veðrið og tengd mál (færðina etc) heldur en Ísland og hversu ómöguleg við erum! Í morgun þegar ég fann til morgunmatinn minn hlustaði ég t.d. á þátt þar sem fólk hringdi inn og þar voru sérfræðingar að kenna fólki að spara orku, keyra jeppa, bjarga dýrum og komast af almennt í kuldanum! Einnig hvernig á að búa til göt í frosin vötn til að nálgast vatn (bræða gat á ísinn - ekki brjóta, af hættu við að detta ofan í !) Þar hringdi einnig inn kona sem ætlar að opna neyðarverslun í þorpi ekki svo langt héðan, því það er ekkert kaupfélag í þorpinu (né næsta þorpi!) og almenningssamgöngur ekki virkar þannig að fólk þarf að ganga 8 km (í snjónum) til að ná í nauðsynjavörur, þ.e. þeir sem ekki keyra! Það er alveg í takt við það að fara í búðina, fólk er greinilega að hamstra því fyrir miðjan opnunartíma dagsins eru t.d. brauð, mjólk, grænmeti og egg iðulega uppurin! Ekki það ég vilji vera hrokafull en við verðum nú aðeins að sýna smá skynsemi! Ég segi bara eins og gamli pólski karlinn í fréttunum; 'nú hleypur fólk upp til handa og fóta við minnstu snjókomu eða frost' - við erum orðin svo góðu vön að við kunnum bara ekki á þetta lengur! Þetta er mesti vetur hér í Bretlandi bara í 42 ár, minnir mig að ég hafi heyrt einhvers staðar - það er þá fullt af fólki á mínum aldri sem hefur bara aldrei upplifað almennilegan vetur á ævinni sinni! Að hugsa með sér...

Gömlu brýnin -

Nú er ég búin að sjá tvær myndir í bíó hér í Bretlandi sem er í sjálfu sér ekki í frásögu færandi þar sem þetta voru engin meistarastykki - meira létt afþreyingarefni! Þó ég hafi í raun greitt fyrir herlegheitin eins og fyrir leikhúsferð heima (amk hér áður fyrr!). Í fyrri myndinni fóru Hugh Grant og Sarah Jessica Parker hamförum en í þeirri síðari fóru Alec Baldwin og Meryl Streep með aðalhlutverkin. Ótrúlegt en satt, ég er orðin fullorðin - eins og þau! Mér fannst ég alltaf vera 'stelpan' og þau fullorðna fólkið en nú sé ég t.d. að Grantarinn er að eldast... ekki svo mikið eldri en ég sjálf, fullorðna konan! Jú, ég viðurkenni að síðarnefnda parið eru af kynslóð foreldra minna, frekar en minni en þetta er áhugavert, engu að síður og fær mann náttúrulega til að hugsa! Mun ég verða foreldri? hvernig foreldri þá? verð ég gömul? hvernig 'gömul kona' verð ég? Auðvitað veltur þetta allt á sjálfri mér eftir allt saman, svo lengi sem ég held heilsu og lífi, yfir höfuð - hvað vil ég? Hvernig kona vil ég vera?

Friday 8 January 2010

Maður er manns gaman!

Djö... er gaman að hitta fólk! Ég hef verið svo félagslega einangruð, þannig séð (skrifaði fyrst 'einanguð' - spurning hvort það sé 'freudian slip' eða hvað; einan guð!), að mig hefur undanfarna daga, þyrst hreinlega í félagslíf! Í þessu veðralamasessi, lengist biðin eftir að námið hefjist og skólinn tilkynnti t.d. í dag að það yrði ekki skóli á mánudaginn. Men, hvað ég var súr yfir að vera ekki farin til hennar Böbu minnar í Wales eins og ég ætlaði fyrr í vikunni en þorði ekki af ótta við að komast ekki til baka og geta þar af leiðandi ekki byrjað á réttum tíma, svona eftir allt saman! Til allrar hamingju hitti ég einn vin minn í gær í kaffispjalli í bænum og aðra vinkonu í dag í meira kaffispjalli og viti menn; sál mín lyftist og gleðst - mér finnst ég vera hluti af stærri heild! Maður er manns gaman er eitthvað sem sannast best er skortur er á!

Wednesday 6 January 2010

Nú er það alvöru!

Það er svolítið skondið að vera Íslendingur í vetrinum hér í Bretlandi - t.d. halda margir að mér geti nú varla fundist vera einhver vetur hér, að ég hljóti að vera vön svo ægilega köldum og vesælum dögum veturinn út á landinu elda og íss að veturinn hér sé barnaleikur einn! Sem er á margan hátt rétt, þ.e. að því leiti að hér fer allt úr skorðum við minnsta snjófall, skólum lokað, almenningssamgöngur leggjast niður og fór þarf oftar en ekki að fara í vinnuna! Kuldinn hér er afstæður í samanburði við Ísland, það er svo rakt hér að minni kuldi á mælinum þýðir samt meiri kuldi í kroppnum. Ég er viss um að mér er alveg jafn kalt og hverjum öðrum sem ekki er vanur köldum vetrum. Helsti munurinn er að hér er fólk ekki undir þetta búið, götur eru ekki ruddar, það er ekki saltað eða sandað og ég hef t.d. aldrei á ævinni séð jafn marga detta kylliflatir á rassgatið eins og um daginn þegar rigndi svona ofan á allt saman (eins og á eftir að gerast einhvern næstu daga, næstu viku). Í dag var allt í lamasessi í Bretlandinu, ábyggilega eins og í fleirum Evrópulöndum og ég verð að segja að nú er þetta alvöru! Það hefur fallið 20-30cm snjór, þykkur og blautur og það snjóar enn og frystir á nóttunni þannig að gamanið er rétt að byrja! Flugvellirnir eins og t.d. Gatwick og Stanstead eru mas lokaðir! Það er dásamlega fallegt úti engu að síður, ekki of kalt, allt hvítt og stillt... hreinlega eins og landið, og kannski landinn, sé undir snjóhvítri, fagurri, ofurmjúkri dúnsæng. Þessa mynd tók ég á göngunni í dag...

Sunday 3 January 2010

Öðruvísi lykt meðal annars!

Rólega en ljúflega geng ég inn í nýtt ár, 2010, hef eytt fyrstu dögunum í að koma mér betur fyrir í herberginu mínu, ganga og ganga (eftir mikla kyrrveru síðustu 10 daga!) og hugleiða! Já og ekki má gleyma internetinu sem hefur fengið drjúga athygli :)
Nýjársmorgun var dásamlegur enda veðrið með eindæmum síðan, glampandi sól og brakandi kuldinn. Ég vaknaði snemma og fór í morgungönguna hér með Coombe Hill road sem er langur einkavegur með uþb 50 villum (taldi þær í gær!) - Vegurinn er fallegur, við skóglendi og engi og það var dásamlegt að rekast á dádýr, refi, ótal fugla og svo bara venjulegar kisur á göngunni, staldra við í kantinum og láta sólina verma kropp og sálu.
Það er svo sérstök lykt í vetrarloftinu hér í Englandi; veit ekki hvort þetta er bara veturinn en ég man amk ekki eftir þessu svona sterklega hér áður fyrr! Nema kannski skynfæri mín séu næmari! Sérstök blanda af gaslykt og reyktri furulykt....

Friday 1 January 2010

Sannleikurinn er sagna bestur!

'Að sjá hlutina eins og þeir virkilega eru, að sjá lífið í sönnu ljósi' - Það er stefna hugleiðslutækninnar sem ég lærði og naut yfir jólin!

Frá 20. des. s.l. á vetrarsólstöðum til gamlársdags á fullu tungli, þagði ég og hugleiddi - gladdist og þjáðist í senn. Á Vipassana, 10 daga þöglu hugleiðslunámskeiði eða 10 days silent retreat in East Anglia...... þar var ég! Fyrsta ræs á morgnana var kl. 04 og hugleiðslan byrjaði kl. 04.30 og stóð með matarhléum og fyrirlestrarhléi fram á kvöld, ljósin slökkt um kl. 21.30. Þetta var bæði dásamlegt og hræðilegt og allt þar á milli en ég er himinlifandi að hafa farið og ánægð með fræðin, tæknina og árangurinn. Ég mæli með þessu og þeir sem vilja kynna sér málið frekar, endilega kíkið á heimasíður eins og http://www.dipa.dhamma.org/, http://www.vipassana.com/ eða http://www.dhamma.org/.

Það er skrítið og áhugavert að koma út úr svona dvöl og mikilli samveru með engu nema sjálfum sér að algjöru leiti í 10 daga. Einnig eftir að deila herbergi með 5 öðrum konum í algerri þögn (engar augngotur eða handapat), engin skriffæri, bækur, tónlist, tölvur, símar eða annað sem annars dreifir athygli okkar svo ötullega í hversdagsleikanum. Það er boðið upp á létt en gott fæði og morgunmaturinn kl. 06.30 var algjörlega í uppáhaldi. Ég er nú opinberlega farin að borða hafragraut, ekki seinna vænna fyrir hálffertuga konuna! Ekki að það sé það eina sem komið hafi út úr dvölinni en....

Gleðilegt ár 2010... og ég meina það!

Árið 2009 hefur verið ótrúlega lærdómsríkt, þungt en afdrifaríkt og fullt af jákvæðum skrefum í rétta átt. Takk fyrir það.
Ég óska okkur öllum af öllu lifandi hjarta áframhaldandi jákvæðum skrefum í rétta átt, góða átt - gleði, friðar og umfram allt kærleika og sannleika.